Innlent

Spyr hvort ríkis­stjórnin sé sátt við á­herslur Lilju í jafn­réttis­málum

Sylvía Hall skrifar
Hanna Katrín Friðriksson.
Hanna Katrín Friðriksson. Vísir/Vilhelm

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, kallar eftir afstöðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til dómsmáls sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningamálaráðherra hefur höfðað til þess að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Hönnu Katrínar á Facebook.

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í lok maí að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að ráða Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, kærði ráðninguna og taldi kærunefndin að ráðherra hefði vanmetið hana í samanburði við Pál.

Til þess að hægt verði að ógilda úrskurðinn þarf ráðherra að höfða mál gegn Hafdísi sjálfri, sem kærði ráðninguna. Hanna Katrín segir það tíðindi að menntamálaráðherra kjósi að fara þessa leið og spyr hver afstaða forsætisráðherra sé.

„Ég velti því fyrir mér hvort þessi ákvörðun hafi verið rædd í ríkisstjórn og hver sé afstaða Katrínar Jakobsdóttur til dómsmálsins. Forsætisráðherra fer með jafnréttismál eftir að hafa tekið málaflokkinn til sín í upphafi kjörtímabilsins, vafalítið til að gera jafnréttismálum sérstaklega hátt undir höfði,“ skrifar Hanna Katrín.

Segir Lilju ekki hafa mætt í fyrirspurnatíma eftir að málið kom upp

Hanna Katrín spurði forsætisráðherra um málið daginn sem það kom upp, eða 2. júní síðastliðinn. Menntamálaráðherra hafi ekki verið í þingsal þann daginn en forsætisráðherra sagði hana þurfa að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, og að hún myndi að öllum líkindum svara í þingsal síðar.

„Sú spá forsætisráðherra hefur því miður ekki gengið eftir,“ skrifar Hanna Katrín og segir Lilju ekki hafa mætt í fyrirspurnatíma þingmanna eftir að málið kom upp.

„Menntamálaráðherra hefur síðustu vikurnar vissulega verið að störfum í ráðuneyti sínu. Hún situr ríkisstjórnarfundi og fréttir eru af störfum hennar í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Menntamálaráðherra sést jafnframt í þinghúsinu, t.d. á þingflokksfundum Framsóknar. Hún hefur bara ekki mætt í þingsal í fyrirspurnatíma þingmanna eftir að þetta mál kom upp.“

Hún segir enn mörgum spurningum ósvarað í málinu. Þó sé stærsta spurningin hvort þetta samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

„Ríkir sátt í ríkisstjórninni um þessar áherslur í jafnréttismálum?“ spyr Hanna Katrín að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×