Erlent

Lam segir öryggislögin ekki hafa áhrif á frelsi íbúa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Allt frá því Bretar afhentu kínverskum stjórnvöldum Hong Kong við hátíðlega athöfn árið 1997 hefur reglan um eitt land, en tvö kerfi, verið í gildi. Hong Kong hefur sum sé fengið að vera sjálfsstjórnarsvæði með stjórnkerfi og reglur töluvert frábrugðnar því sem sjá má á meginlandinu.

Andstæðingar öryggislaganna telja að kínverski Kommúnistaflokkurinn sé nú að hverfa frá þessari stefnu. Með nýju lögunum verður ólöglegt að grafa undan yfirráðum Kínverja með nokkrum hætti. Þá verður samráð við önnur ríki eða utankomandi öfl um allt slíkt bannað sömuleiðis.

Carrie Lam, æðsti stjórnandi Hong Kong, ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í dag og sagði að lögin myndu ekki hafa áhrif á sjálfstæði dómstóla í Hong Kong. „Þetta mun heldur ekki raska því frelsi og þeim réttindum sem íbúar njóta.“

Hún sagði löggjöfina að auki nauðsynlega til að tryggja öryggi á svæðinu á ný eftir mótmælahrinu síðasta árs.

Stjórnvöld í grannríkinu Japan sögðust harma þessa þróun og heimamenn hafa mótmælt nýju löggjöfinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×