Enski boltinn

Segir að markið sem tekið var af Totten­ham sé ein versta á­kvörðun sem hann hefur séð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tottenham menn skildu ekki upp né niður í dómnum í gær.
Tottenham menn skildu ekki upp né niður í dómnum í gær. vísir/getty

Ekkert var meira rætt eftir 3-1 sigur Sheffield United á Tottenham í gærkvöldi heldur en markið sem VAR dæmdi af Tottenham í síðari hálfleik.

Harry Kane kom boltanum í netið og við fyrstu virtist markið vera fullkomnlega löglegt. Eftir skoðun í VARsjánni komst Michael Oliver að því að dæma hendi á Lucas Moura.

Dómurinn var afar strangur enda datt Moura og varnarmaður Sheffield þrumaði boltanum í hann af innan við hálfs meters færi. Óvíst er einnig hvort að boltinn hafi yfir höfuð farið í höndina á Brasilíumanninum.

Tottenham-menn voru æfir og einn fyrrum leikmaður liðsins var afar hissa á dómnum er hann ræddi um leikinn á Sky Sports.

„Ein versta ákvörðun sem ég hef séð,“ sagði Jamie Redknapp er hann fjallaði um leikinn í gær.

„Ég veit að við þurfum að fara eftir laganna bókstaf en það þarf að sýna skilning. Þegar það er brotið á þér, verðurðu að setja hendurnar niður. Þetta var óhapp og hann ætlaði ekki að gera þetta. Þetta er skelfileg ákvörðun og þetta er að eyðileggja fótboltann. Ótrúlegt.“

Það var ekki bara Redknapp sem lýsti yfir vonbrigðum sínum með dóminn í gær því Twitter gjörsamlega logaði út af dómnum en hver veit hvernig leikurinn hefði þróast hefði markið fengið að standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×