Stjórnarandstaðan í Hong Kong segir að meira en 600 þúsund íbúar sjálfstjórnarhéraðsins hafi um helgina greitt atkvæði í prófkjöri stjórnarandstöðuhópsins. Atkvæðin eru sögð merkingarþrungin og gefa til kynna hve margir séu mótfallnir nýjum öryggislögum sem yfirvöld í Peking kynntu nýlega en þeir sem talað hafa fyrir auknu lýðræði í sjálfstjórnarhéraðinu hafa gagnrýnt lögin harðlega og sagt þau ógna stöðu og sjálfstæði Hong Kong auk þess að þagga niður í gagnrýnisröddum.
Niðurstöður prófkjörsins munu móta framboðslista stjórnarandstöðuhópsins, sem styður aukið lýðræði, fyrir kosningar til löggjafarþings Hong Kong sem haldnar verða í september. Flokkurinn stefnir auðvitað að því að ná meirihluta í fyrsta skipti frá stjórnarflokknum sem styðja yfirvöld Kína.
Mikil þátttaka var í prófkjörinu, sem aðeins var fyrir stjórnarandstöðuna, og er það talið gefa til kynna að stór hluti borgarbúa styðji ekki aukin yfirráð Kína á svæðinu. Í héraðinu búa um 7,5 milljónir.
Háttsettir embættismenn í Hong Kong höfðu varað stjórnarandstöðuna við því að prófkjörið gæti verið brot á öryggislögunum en þrátt fyrir það flykktist fólk á kjörstaði sem voru meira en 250 talsins um alla borg. Langar raðir mynduðust fyrir utan kjörstaðina þar sem kjósendum var gert kleift að kjósa á netinu, eftir að borið hafði verið kennsl á þá.
Skipuleggjendur segja að 592 þúsund hafi verið búnir að kjósa rafrænt og að 21 þúsund hafi mætt á kjörstaði og skilað atkvæði á blaði þegar kjörstöðum var lokað á sunnudagskvöld. Það sé meira en búist var við. Þeir sem kusu í prófkjörinu voru um þriðjungur þeirra sem studdu við stjórnarandstöðuna í kosningunum í fyrra.