Erlent

Leið­togar stjórnar­and­stöðunnar úti­lokaðir frá kosningum í Hvíta-Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexander Lúkasjenkó hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi í 26 ár. Nærri allir pólitískir keppinautar hans hafa verið handteknir eða rannsakaðir í aðdraganda kosninga í ágúst.
Alexander Lúkasjenkó hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi í 26 ár. Nærri allir pólitískir keppinautar hans hafa verið handteknir eða rannsakaðir í aðdraganda kosninga í ágúst. Vísir/EPA

Yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands hafnaði því að skrá framboð tveggja helstu leiðtoga stjórnarandstöðu landsins fyrir forsetakosningar sem fara fram í næsta mánuði. Ákvörðunin þýðir að Alexander Lúkasjenkó forseti til 26 ára verður svo gott sem sjálfkjörinn.

Andstaða við Lúkasjenkó forseta í aðdraganda kosninganna nú er sögð sú mesta í fleiri ár vegna gremju almennings yfir efnahagsþrenginum, stöðu mannréttindamála og afneitun forsetans á alvarleika kórónuveirufaraldursins.

Nærri allir helstu andstæðingar Lúkasjenkó hafa nú hins vegar annað hvort verið handteknir eða rannsakaðir í aðdraganda kosninganna. Þeir tveir sem helst voru taldir eiga möguleika á að velta Lúkasjenkó úr sessi hafa nú verið útilokaðir frá framboði.

Viktor Babariko var synjað um skráningu sem frambjóðandi eftir að hann var handtekinn í síðasta mánuði. Vísaði kjörstjórnin til sakamáls gegn honum. Hann er sakaður um að hafa komið hundruð milljónum dollara úr landi í umfangsmiklu peningaþvættismála en neitar sök.

Þá fékk Valerí Tsepkalo, fyrrverandi sendiherra, ekki að bjóða sig fram eftir að kjörstjórnin ógilti meðmælendalista, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Talsmaður framboðs Tsepkalo segir hann ætla að kæra ákvörðunina til dómstóla.

Mannréttindsamtök fullyrða að fleiri en sjö hundruð manns hafi verið handteknir í tengslum við kosningabaráttuna í Hvíta-Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×