Enski boltinn

VAR hefur dæmt sjö mörk af mótherjum Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Varsjáin hefur hér dæmt af markið sem Jordan Ayew skoraði fyrir Crystal Palace á móti Manchester United í gær og hélt að hann hefði jafnað með því leikinn í 1-1. United vann 2-0.
Varsjáin hefur hér dæmt af markið sem Jordan Ayew skoraði fyrir Crystal Palace á móti Manchester United í gær og hélt að hann hefði jafnað með því leikinn í 1-1. United vann 2-0. Getty/Glyn Kirk

Stuðningsmenn Manchester United eru örugglega ekki mikið á móti Varsjánni eftir þetta tímabil enda hefur hún reynst liðinu afar vel.

Manchester United vann mikilvægan 2-0 sigur á Crystal Palace í gær þar sem VAR dæmdi af jöfnunarmark Crystal Palace. Það munaði ekki mörgum millimetrum.

Fyrr í leiknum voru mjög margir á því að Crystal Palace ætti að fá dæmda vítaspyrnu þegar Victor Lindelof virtist fella Wilfried Zaha í teignum. VAR gerði ekkert í því og leikurinn hélt áfram.

Þetta voru tvö atvik í viðbót við öll hin sem hafa fallið með Manchester United á leiktíðinni og það sýnir líka tölfræðin í kringum Varsjána.

Manchester United hefur alls grætt tíu sinnum á Varsjánni eða í átta fleiri skipti en mótherjar þeirra. Það er það mesta af öllum liðum deildarinnar á báðum stöðum.

Sjö sinnum hefur Varsjáin dæmt mark af mótherjum Manchester United en VAR hefur aldrei dæmt mark af United liðinu.

Ekkert annað félag hefur sloppið oftar en skrekkinn þegar mótherjarnir skora en það hafa líka verið dæmd sjö mörk af mótherjum Southampton og Brighton.

Ofan á þetta hafa leikmenn Manchester United alls fengið þrettán vítaspyrnur í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili sem er þremur fleiri en næsta lið sem er Manchester City.

Manchester United hefur sem dæmi fengið átta fleiri vítaspyrnur en Liverpool og tólf fleiri vítaspyrnur en Everton.

Það hefur oft verið erfitt að átta sig á Varsjánni á þessari leiktíð og upp hafa komið mörg umdeild atvik þar sem VAR dómararnir hafa annað hvort tekið þá ákvörðun að gera ekkert eða staðfesta dóminn á vellinum þótt að margt bendi til þess að hann sé ekki réttur.

Samsæriskenningarnar eru líka háværar þegar hlutirnir falla ítrekað með einu félagi ekki síst hjá pirruðum stuðningsmönnum erkifjenda þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×