Enski boltinn

„Munurinn á mér og Solskjær er að hann fékk tíma“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes fer á sinn gamla heimavöll, Old Trafford, annað kvöld.
David Moyes fer á sinn gamla heimavöll, Old Trafford, annað kvöld. getty/Richard Heathcote

David Moyes segir að eini munurinn á sér og Ole Gunnar Solskjær í stjórastólnum hjá Manchester United sé að Norðmanninum hafi verið sýnd þolinmæði.

Moyes stýrir West Ham sem mætir United í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar annað kvöld.

Skotinn var ráðinn eftirmaður Sir Alex Ferguson hjá United 2013 en entist aðeins tíu mánuði í starfi. Hann segist hafa þurft meiri tíma, eitthvað sem Solskjær hafi fengið hjá United.

„Þetta er stórkostlegt félag og að mínu mati það stærsta í heimi. Það hefur alltaf verið einstakt að spila þarna og ég hlakka til leiksins,“ sagði Moyes á blaðamannafundi fyrir leikinn á morgun.

„Byrjunin hjá Ole var erfið en munurinn á mér og honum er að hann fékk tíma,“ bætti Skotinn við. Hann hrósaði Solskjær fyrir að nota unga leikmenn síðan hann tók við liðinu.

„Hann hefur tekið inn leikmenn úr unglingastarfinu sem er eitthvað sem Manchester United hefur alltaf staðið fyrir. Þeir eru með nokkra mjög spennandi leikmenn.“

Eftir tvo sigra í röð er West Ham svo gott sem búið að bjarga sér frá falli. United á hins vegar í harðri baráttu við Chelsea og Leicester City um að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

United er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 62 stig, jafn mörg og Leicester sem er í 4. sætinu. United á hins vegar leikinn við West Ham til góða. United og Leicester mætast svo í lokaumferðinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×