Enski boltinn

Óvænt rekinn en fær feitan bónus ef Watford heldur sér uppi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nigel Pearson er ekki allra þótt hann hafi náð ágætis árangri á stjóraferli sínum.
Nigel Pearson er ekki allra þótt hann hafi náð ágætis árangri á stjóraferli sínum. getty/Matthew Childs

Þrátt fyrir að hafa verið óvænt rekinn frá Watford á sunnudaginn fær Nigel Pearson vænan bónus ef liðið heldur sér í ensku úrvalsdeildinni.

Watford tapaði 0-4 fyrir Manchester City í fyrsta leik liðsins eftir brottrekstur Pearson. Aston Villa nýtti tækifærið, vann Arsenal, 1-0, og komst upp úr fallsæti.

Watford og Aston Villa eru bæði með 34 stig fyrir lokaumferðina í ensku úrvalsdeildina en Villa er með hagstæðari markatölu.

Í lokaumferðinni á sunnudaginn þarf Watford því að ná betri úrslitum en Villa til að halda sér uppi. Watford sækir Arsenal heim á meðan Villa mætir West Ham á útivelli.

Ef Watford tekst að halda sér uppi fær Pearson eina milljón punda í bónus sem samsvarar 173 og hálfri milljón íslenskra króna. Engu breytir þótt Pearson stýri Watford ekki í síðustu tveimur umferðunum.

Uppsögn Pearsons kom mörgum í opna skjöldu enda hafði hann gert fína hluti með Watford síðan hann tók við liðinu í desember á síðasta ári. Þá var Watford aðeins með átta stig eftir fimmtán leiki. 

Watford vann fjóra af fyrstu sex deildarleikjum sínum undir stjórn Pearson og varð svo fyrsta liðið til að vinna Liverpool, 3-0, í febrúar.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Pearson og Gino Pizzo, eigandi Watford, hafi rifist eftir 3-1 tap Watford fyrir West Ham á föstudaginn. Í kjölfarið fékk Pearson reisupassann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×