Enski boltinn

Schmeichel kemur De Gea til varnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markverðir standa saman.
Markverðir standa saman. Vísir/Getty Images

Kasper Schmeichel - markvörður Leicester City í ensku úrvalsdeildinni - hefur komið David De Gea, markverðir Manchester United í sömu deild, til varnar. Spánverjinn hefur verið mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína gegn Chelsea í FA-bikarnum á dögunum. 

Reyndar hefur frammistaða De Gea dalað verulega undanfarna 18 mánuði eða svo.

„Markmenn verða alltaf undir smásjánni. Mér þykir hann vera að fá full ósanngjarna gagnrýni þessa stundina,“ sagði Kasper í viðtali við BBC. 

Leicester City og Manchester United mætast í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn en liðin eru í hatrammri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Gegn Chelsea skoraði Oliver Giroud af stuttu færi og það verður að viðurkennast að það er fullhart að kenna De Gea um það. Í síðari hálfleik þá átti Mason Mount slakt skot á mark sem De Gea leyfði að leka yfir línuna.

Schmeichel ákvað í stað þess að senda pillu á þá sem fjalla um leikina á Englandi.

„Það eru engir fyrrum markverðir að leikgreina eða fjalla um leikina í sjónvarpi og blöðum. Svo mér finnst gagnrýnin ósanngjörn. Þeir gera sitt besta til að kafa ofan í hlutina en þeir vita einfaldlega ekki sannleikann.“

„Mér finnst mjög ósanngjarnt hvernig er þrumað yfir De Gea,“ sagði Schmeichel að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×