Jóakim Danaprins mun ná sér að fullu af blóðtappa í heila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku konungsfjölskyldunni. Jóakim var lagður inn á sjúkrahús vegna blóðtappans í frönsku borginni Toulouse seint á föstudagskvöld og gekkst undir aðgerð.
„Eftir innlögn og meðferð á gjörgæslu síðustu daga er það nú mat lækna að Jóakim prins muni hvorki kljást við líkamlegar né annars kyns afleiðingar af blóðtappanum,“ segir í tilkynningu konungsfjölskyldunnar.
Jóakim liggur enn á gjörgæslu á háskólasjúkrahúsinu í Toulouse en verður fluttur þaðan innan skamms. Búist er við að hann liggi áfram inni á sjúkrahúsi næstu daga.
Jóakim hafði ásamt fjölskyldu sinni fagnað átján ára afmæli Felix prins, næstelsta barni hans, í Chateu de Cayx. Prinsinn býr í Frakklandi ásamt eiginkonu sinni, Maríu prinsessu og börnum þeirra Hinrik og Aþenu.