Enski boltinn

Bournemouth íhugar að fara í mál við fyrirtækið sem sér um marklínutæknina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið örlagaríka í leik Aston Villa og Sheffield United.
Atvikið örlagaríka í leik Aston Villa og Sheffield United. getty/Matthew Ashton

Bournemouth íhugar að höfða skaðabótamál á hendur Hawk-Eye, fyrirtækisins sem sér um marklínutæknina í ensku úrvalsdeildinni.

Marklínutæknin klikkaði illilega í leik Aston Villa og Sheffield United þann 17. júní. Síðarnefnda liðið skoraði þá mark sem var ekki dæmt gilt þótt boltinn væri augljóslega kominn inn fyrir línuna.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Villa hélt sér uppi en Bournemouth féll úr ensku úrvalsdeildinni. Aðeins einu stigi munaði á liðunum. Ef markið á Villa Park hefði verið dæmt gilt hefði Bournemouth haldið sér uppi en Villa fallið. 

Hawk-Eye baðst afsökunar á mistökunum sem reyndust Bournemouth svo dýr. Forráðamenn félagsins velta því nú fyrir sér hvort þeir eigi að höfða skaðabótamál á hendur Hawk-Eye.

Ljóst er að fallið hefur mikil áhrif á fjárhagsstöðu Bournemouth. Á síðasta tímabili kom nánast öll innkoma félagsins frá ensku úrvalsdeildinni, eða 116 af 131 milljón punda.

Eftir tímabilið 2006-07 fékk Sheffield United um 20 milljónir punda í skaðabætur vegna félagaskipta Carlos Tevez til West Ham. Hamrarnir héldu sér uppi á kostnað Sheffield-liðsins, ekki síst vegna framlags Tevez.

Bournemouth vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni 2015. Liðið lék þar í fimm tímabil. Ekki liggur fyrir hvort Eddie Howe verður áfram knattspyrnustjóri Bournemouth. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×