Erlent

Táningar hand­teknir á grund­velli öryggis­laganna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikil ólga hefur ríkt í Hong Kong vegna setningar öryggislaganna, sem margir telja aðför að lýðræði í sjálfstjórnarhéraðinu. Myndin er úr safni.
Mikil ólga hefur ríkt í Hong Kong vegna setningar öryggislaganna, sem margir telja aðför að lýðræði í sjálfstjórnarhéraðinu. Myndin er úr safni. Anthony Kwan/Getty

Reiði er á meðal mótmælenda í Hong Kong eftir að fjórir námsmenn voru hnepptir í varðhald í borginni á grundvelli nýrra öryggislaga. Sumir hinna handteknu hafa ekki náð 20 ára aldri.

Hinn nítján ára gamli Tony Chung, sem farið hefur fyrir hópi mótmælenda síðustu misserin og þrír félagar hans voru handteknir seint í gærkvöldi á grundvelli nýju laganna. Eru þau sökuð um að skipuleggja og hvetja til þess að Hong Kong segir sig frá Kína, en fólkið hefur barist fyrir auknu lýðræði í sjálfstjórnarhéraðinu sem Kínverjar tóku við af Bretum árið 1997.

Fólkið, sem er á aldrinum 16 til 21 árs gæti, á grundvelli nýju laganna, átt yfir höfði sér þriggja til tíu ára fangelsisdóm, eða lífstíðarfangelsi, verði brot þeirra metin alvarleg.

Kínverjar höfðu áður heitið því að Hong Kong yrði áfram sjálfstjórnarhérað til ársins 2047, eða þar til 50 ár væru liðin frá því að héraðið hætti að heyra undir Breta sem nýlenda. Kínversk stjórnvöld réttlættu setningu öryggislaganna á þeim grundvelli að aðskilnaðarstefna og málstaður þeirra sem vilja aukið lýðræði og sjálfsstjórn Hong Kong teldust til ógnar við þjóðaröryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×