Golf

Algjör óvissa um Íslandsmótið í golfi - „Búið að gera miklar ráðstafanir“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru ríkjandi Íslandsmeistarar í golfi.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru ríkjandi Íslandsmeistarar í golfi. mynd/seth@golf.is

„Auðvitað förum við bara eftir þeim tilmælum sem okkur eru veitt,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands. Íslandsmótið í golfi átti að fara fram 6.-9. ágúst en nú ríkir algjör óvissa um mótið.

Eftir tilmæli stjórnvalda þess efnis að öllum íþróttaviðburðum verði frestað fram til 10. ágúst virðist ekki koma til greina að Íslandsmótið fari fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ um þarnæstu helgi.

„Þessar fréttir voru auðvitað bara að berast og mótsstjórn kemur saman núna í hádeginu til að fara yfir stöðuna, og afla þeirra upplýsinga sem við þurfum til að taka ákvörðun um næstu skref,“ segir Haukur.

Tveggja metra smitvarnareglan tekur gildi frá og með morgundeginum og hámarksfjöldi fólks á sama stað verður 100 manns.

„Viljum auðvitað halda Íslandsmótið“

„Auðvitað förum við bara eftir þeim tilmælum sem okkur eru veitt, en við þurfum aðeins að átta okkur á því hvað felst í þeim tilmælum. Þegar við höfum metið það þá tökum við ákvörðun um næstu skref, og við náum vonandi að gera það í dag,“ sagði Haukur.

En er svigrúm til að fresta mótinu og halda það síðar í sumar, með von um að ástandið vegna kórónuveirufaraldursins verði þá betra?

„Ég á erfitt með að svara því. Það er auðvitað búið að gera miklar ráðstafanir varðandi þessa tilteknu daga. Til að mynda stendur til að vera með mótið í beinni útsendingu í sjónvarpi og svo framvegis, og það þurfa því allir aðilar að setjast niður og athuga hvort hægt sé að færa mótið til ef þess þarf.

Við viljum auðvitað halda Íslandsmótið í golfi. Ef við þurfum að gera það í breyttri mynd þá þarf bara að skoða það. Okkur finnst mikilvægt að mótið fari fram en það fer auðvitað ekki fram ef það er ekki heimilt. Það þyrfti þá að finna því einhvern annan stað en það er of snemmt að segja til um það núna,“ sagði Haukur.


Tengdar fréttir

Leikið í kvöld og KSÍ ræður ráðum sínum

Knattspyrnusamband Íslands fékk engan fyrirvara um þau tilmæli sem íþróttahreyfingunni er nú gert að fara eftir, þess efnis að kappleikjum fullorðinna skuli frestað um viku, og starfsfólk sambandsins ræður nú ráðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×