Golf

Engin frestun á Íslandsmótinu í golfi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Brá á titil að verja en hún er ríkjandi Íslandsmeistari golfi.
Guðrún Brá á titil að verja en hún er ríkjandi Íslandsmeistari golfi. Mynd/Stöð 2 Sport

Íslandsmótið í golfi mun fara fram á tilsettum tíma frá 6. til 9. ágúst eins og upprunalega til stóð. Fer mótið fram á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá GSÍ.

„Golfsamband Íslands hefur lagt fram tillögur til stjórnvalda um að leika keppnisgolf og jafnframt virða sóttvarnareglur. Var það gert í ljósi hertra sóttvarnaaðgerða og takmörkunar á íþróttastarfi í kjölfar tilkynningar stjórnvalda 30. júlí. Það er Golfsambandinu mikil ánægja að tilkynna að tillögurnar hafa verið samþykktar og mun Íslandmótið í golfi því fara fram á áður auglýstum tíma,“ segir í tilkynningu GSÍ.

„Öryggi keppenda verður í forgrunni og verða nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til að tryggja hreinlæti og öryggi eftir fremstu getu. Það er mikið tilhlökkunarefni að sjá bestu kylfinga landsins keppa um Íslandsmeistaratitlana en skráningu í Íslandsmótið lýkur kl. 23:59 á mánudag. Því er ljóst að Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki verða krýndir sunnudaginn 9. ágúst. Sóttvarnaaðgerðir á meðan á mótinu stendur verða kynntar þegar nær dregur,“ segir einnig í tilkynningunni.

Þau Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eiga titil að verja og þau fá nú tækifæri til þess í Mosfellsbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×