Slúðurmiðlar vestanhafs greina nú frá því að Clare Crawley sé hætt í miðjum tökum á nýjustu seríu af The Bachelorette eftir að hafa fallið nánast samstundis fyrir einum keppanda. Þá er fullyrt að Tayshia Adams, ein þekktasta stjarna Bachelor-þáttanna, taki við sem Bachelorette í stað hennar.
Cosmopolitan greinir frá því að Clare hafi tilkynnt framleiðendum að hún sæi engan tilgang í því að halda þáttunum áfram í ljósi þess að hún væri nú þegar ástfangin af einum keppanda. Hún hafi hótað að hætta í miðju ferli og neitaði að koma út úr herbergi sínu vegna málsins.
Aðdáendum fór að gruna að ekki væri allt með felldu eftir að Clare sást líka við færslu á Twitter nú á dögunum. Hún var þó fljót að taka það til baka, en líkt og aðdáendur þáttanna vita er keppendum óheimilt að nota samfélagsmiðla á meðan tökum stendur og geyma framleiðendur símana þeirra.
Samkvæmt heimildarmönnum E! Online verður framleiðslu þáttanna haldið áfram en með öðru sniði þó. Fyrstu þættirnir munu þannig sýna ferli Clare í þáttunum og ástarsamband hennar þróast áður en Tayshia mun koma í hennar stað og freista þess sjálf að finna ástina.
Framleiðendur þáttanna hafa enn ekki staðfest sögusagnirnar en Reality Steve, sem hefur oft reynst sannspár um það sem gerist á bak við tjöldin í þáttunum, fullyrðir að Tayshia sé mætt á tökustað.