Enski boltinn

Brunaútsala á varnarmönnum hjá Chelsea

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lampard er sagður vilja hrista duglega upp í leikmannahópnum.
Lampard er sagður vilja hrista duglega upp í leikmannahópnum. vísir/getty

Frank Lampard, stjóri Chelsea, virðist vilja stokka upp í varnarleiknum hjá félaginu eftir að liðið fékk á sig 54 mörk í 38 deildarleikjum í vetur.

Ekkert lið í efstu tíu sætunum fékk fleiri mörk á sig en Chelsea. Það þarf að fara alla leið niður í 11. sætið til þess að finna lið sem fékk fleiri mörk á sig en Chelsea.

Kurt Zouma, Andreas Christensen, Emerson Palmieri og Marcos Alonso eru allir sagðir til sölu samkvæmt enska blaðinu The Times.

Lampard ku einnig vera tilbúinn að selja miðjumanninn N'Golo Kante en risarnir á Spáni eru sagðir horfa til hans sem og frönsku meistararnir í PSG.

Lampard er sagður ekki hafa séð þá framþróun hjá Zouma og Christensen sem hann hafði vonast eftir og er ekki hrifinn af kaupum Antonio Conte á Alonso og Palmieri.

Það er ekki bara varnarmenn sem gætu verið á förum því markvörðurinn rándýri Kepa Arrizabalaga gæti einnig verið á förum.

Lampard byrjaði frekar með 38 ára gamlan Willy Caballero í úrslitaleik enska bikarsins um helgina sem tapaðist, 2-1, gegn Arsenal.

Einnig hefur verið nefnt til sögunnar að þeir Ross Barkley, Michy Batshuayi og Victor Moses gætu verið seldir frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×