Enski boltinn

Sá besti í ensku úrvalsdeildinni skoraði 80 prósent marka sinna á tímabilinu í júlí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michail Antonio raðaði inn mörkum fyirr West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í júlí.
Michail Antonio raðaði inn mörkum fyirr West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í júlí. Getty/Arfa Griffiths

Michail Antonio var valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í júlímánuði og sá fyrsti í sögunni til að vera kosinn bestur í júlí.

Michail Antonio fór á kostum með West Ham í júlí og skoraði átta mörk í sjö leikjum í mánuðinum. Það skilaði honum verðlaunum sem besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í lokamánuði tímabilsins.

Michail Antonio skoraði bara tvö mörk í fyrstu sautján deildarleikjum sínum á tímabilinu og var því með áttatíu prósent marka sinna á tímabilinu í júlí.

Michail Antonio skoraði eitt mark á móti Chelsea, Newcastle, Watford og Manchester United en var síðan með fernu í 4-0 sigri West Ham á Norwich.

Michail Antonio lagði líka upp eitt mark og kom því að níu mörkum West Ham sem tapaði aðeins einum leik allan mánuðinn.

Aðrir sem komu til greina sem leikmaður mánaðarins voru þeir Olivier Giroud, Harry Kane, Anthony Martial, Nick Pope, Christian Pulisic og Raheem Sterling.

Ralph Hasenhuttl, knattspyrnustjóri Southampton, var valinn besti stjóri júlímánaðar og varð um leið sá fyrsti frá Austurríki til að hljóta þau verðlaun.

Southampton liðið tapaði ekki leik í mánuðinum og vann meðal annars 1-0 sigur á Manchester City.

Hinn 52 ára gamli Ralph Hasenhuttl fékk mesta samkeppni um hnossið frá þeim Pep Guardiola, Jose Mourinho, David Moyes og Ole Gunnar Solskjaer.

Kevin De Bruyne hjá Manchester City skoraði síðan fallegasta mark mánaðarins en það kom í leik á móti Norwich.

Leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni:

  • Ágúst: Teemu Pukki (NOR)
  • September: Pierre-Emerick Aubameyang (ARS)
  • Október: Jamie Vardy (LEI)
  • Nóvember: Sadio Mane (LIV)
  • Desember: Trent Alexander-Arnold (LIV)
  • Janúar: Sergio Aguero (MCI)
  • Febrúar: Bruno Fernandes (MUN)
  • Júní: Bruno Fernandes (MUN)
  • Júlí: Michail Antonio (WHU)

Stjórar mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni:

  • Ágúst: Jurgen Klopp (LIV)
  • September: Jurgen Klopp (LIV)
  • Október: Frank Lampard (CHE)
  • Nóvember: Jurgen Klopp (LIV)
  • Desember: Jurgen Klopp (LIV)
  • Janúar: Jurgen Klopp (LIV)
  • Febrúar: Sean Dyche (BUR)
  • Júní: Nuno Espirito Santo (WOL)
  • Júlí: Ralph Hasenhuttl (SOU)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×