Enski boltinn

Hvert einasta mark Alexis Sanchez kostaði United meira en milljarð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez fékk ótrúleg laun hjá Manchester United en brást félaginu algjörlega inn á vellinum.
Alexis Sanchez fékk ótrúleg laun hjá Manchester United en brást félaginu algjörlega inn á vellinum. Getty/Matthew Peters

Það er erfitt að finna verri félagsskipti í sögu Manchester United en þegar félagið fékk til sín Alexis Sanchez fyrir tveimur og hálfu ári síðan.

Manchester United taldi sig vera að fá stórstjörnu framtíðarinnar þegar liðið skipti við Arsenal á Alexis Sanchez og Henrikh Mkhitaryan í janúar 2018.

Alexis Sanchez hafði farið á kostum í mörg ár með Arsenal liðinu í ensku úrvalsdeildinni og var ein af stærstu stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar.

Hann fann sig aftur á móti aldrei í búningi Manchester United, glímdi við meiðsli og var mjög ósannfærandi þegar hann spilaði.

Alexis Sanchez gekk illa að vinna sér sæti í liðinu og var á endanum ýtt til hliðar. Hann fór síðan á láni til Internazionale sem fékk hann síðan á frjálsri sölu í dag.

Þessi mistök að fá Alexis Sanchez voru allt annað en ódýr fyrir Manchester United eins og sést vel hér fyrir neðan.

Alexis Sanchez fékk nefnilega fjögurra og hálfs árs samning við Manchester United og var að fá 400 þúsund pund í laun á viku sem gerir meira en 71 milljón íslenskra króna á sjö daga fresti.

Alexis Sanchez lék alls 45 leiki fyrir Manchester United í öllum keppnum og skoraði í þeim fimm mörk. Hann var með 3 mörk í 32 leik í ensku úrvalsdeildinni.

Bleacher Report lék sér að því að taka saman hversu dýrt hvert mark, hver stoðsending og hver leikur hjá Alexis Sanchez var fyrir United.

Manchester United borgaði í raun 6,12 milljónir punda fyrir hvert mark, 3,4 milljónir punda fyrir hverja stoðsendingu og 680 þúsund pund fyrir hvern spilaðan leik.

Hver einasti leikur Alexis Sanchez kostaði United því 121 milljón íslenska króna, hver stoðsending kostaði 606 milljónir króna og hvert mark hans fyrir Manchester United kostaði félagið milljarð og 91 milljón betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×