Enski boltinn

Ancelotti vill ólmur sækja mann í stöðuna hans Gylfa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carlo Ancelotti í leik gegn Wolves á síðustu leiktíð.
Carlo Ancelotti í leik gegn Wolves á síðustu leiktíð. vísir/getty

Carlo Ancelotti, stjóri Everton, virðist ólmur vilja sækja miðjumann til félagsins í sumar en nokkrir leikmenn hafa verið orðaðir við Everton að undanförnu.

Landsliðsmaðurinn Gylfi Sigurðsson spilaði flest alla leiki Everton á síðustu leiktíð en hann mátti þola mikla gagnrýni hjá stuðningsmönnum félagsins.

Ítalski stjórinn hélt þó oftar en ekki tryggð við Íslendinginn og hrósaði honum oft á tíðum og sagði hann mikinn atvinnumann. Nú er spurning hvort Ancelotti vilji hrista upp í pokanum.

Everton hefur m.a. verið orðað við Allan, miðjumann Napoli, en Allan og Ancelotti unnu saman hjá Napoli. Samkvæmt Corriere Dello Sport er Allan fáanlegur fyrir 22,5 milljónir punda.

Það er ekki bara miðjumaðurinn Allan sem er orðaður við félagið heldur er einnig hinn 27 ára gamli Rafinha sagður á óskalista Everton.

Úlfarnir eru einnig sagðir á eftir Rafinha en hann er með klásúlu í samningi sínum. Þar segir að hann sé fáanlegur fyrir 14,5 milljónir punda.

Það er svo spurning hvort að Ancelotti ætli að breyta leikaðferðinni hjá Everton á næstu leiktíð. Hann byrjaði að spila 4-4-2 en undir lok leiktíðarinnar var hann kominn í 4-2-3-1.

Þá var Gylfi Þór kominn í sína uppáhalds stöðu, fyrir aftan framherjann, og vonandi að áframhald verði á því á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×