Einstaklingur á fertugsaldri sem er í öndunarvél á gjörgæslu vegna kórónuveirusmits var einn þeirra sex sem greindust smitaðir í gær og höfðu verið í Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgina. Tugir manna eru nú í sóttkví í Vestmannaeyjum vegna smitanna.
Víði Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, staðfestir við Vísi að einstaklingurinn sem er nú á gjörgæsludeild sé einn þeirra einstaklinga sem heimsóttu Eyjar um verslunarmannahelgina og greindust svo smitaðir af Covid-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur.
Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum var virkjuð í morgun og 48 Eyjamenn hafa verið settir í sóttkví vegna smitanna. Ekkert smit hefur þó enn verið staðfest í Eyjum.
Árlegri þjóðhátíð var aflýst vegna hertra sóttvarnaaðgerða sem tóku gildi á föstudegi við upphaf verslunarmannahelgina. Engu að síður var nokkuð um skemmtanahald í Eyjum þá um helgina, meðal annars fólks sem heimsótti vini og ættingja.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, sagði á upplýsingafundi í dag að þeir sex einstaklingar sem taldir eru hafa smitast í Vestmannaeyjum tengist. Í einhverjum tilfellum séu tengslin alveg skýr. Ekki sé þó hægt að rekja smit þeirra til einhvers ákveðins staðar, smitrakningin sem standi yfir einblíni á þá staði sem þeir smituðu heimsóttu og þá einstaklinga sem voru í grennd við þau.
Ráðist verður í skimun í Vestmannaeyjum líkt og gert var á Akranesi um síðustu helgi eftir að hópsýking kom þar upp.