Enski boltinn

Liverpool búið að ganga frá fyrstu sumarkaupunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kostas Tsimikas skrifar undir hjá Liverpool.
Kostas Tsimikas skrifar undir hjá Liverpool. getty/Andrew Powell

Englandsmeistarar Liverpool hafa gengið frá kaupunum á Kostas Tsimikas frá Grikklandsmeisturum Olympiacos.

Tsimikas, sem er 24 ára vinstri bakvörður, er fyrsti leikmaðurinn sem Liverpool kaupir eftir að síðasta tímabili lauk.

Gríski landsliðsmaðurinn var hjá Olympiacos í sex ár. Hann hefur einnig leikið með Esbjerg í Danmörku og Willem II í Hollandi.

„Ég er mjög ánægður og mjög stoltur að vera hér,“ sagði Tsimikas við heimasíðu Liverpool eftir að hann skrifaði undir samning við félagið. „Að mínu mati er þetta stærsta félag í heimi. Það er heiður að vera hérna og ég mun leggja mig allan fram.“

Tsimikas er hugsaður sem varaskeifa fyrir Skotann Andrew Robertson sem hefur leikið frábærlega í stöðu vinstri bakvarðar hjá Liverpool á undanförnum árum.

Tsimikas er annar Grikkinn sem leikur með Liverpool. Miðvörðurinn Sotirios Kyrgiakos lék 49 leiki og skoraði þrjú mörk fyrir Liverpool á árunum 2009-11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×