Golf

Íslandsmeistarinn náði tökum á keppniskvíða með hjálp sálfræðings

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki fagnar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.
Bjarki fagnar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. mynd/seth@golf.is

Bjarki Pétursson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi, glímdi við mikinn keppniskvíða sem hann náði tökum á með hjálp íþróttasálfræðings.

„Þegar ég fór út til Bandaríkjanna í háskóla fyrir að verða fimm árum byrjaði mér að vera óglatt á morgnana, átti eftir með að borða á morgnana, svaf illa og kastaði jafnvel upp fyrir hringi. Það má segja að þetta hafi verið besti tími lífsins og líka erfiður tími,“ sagði Bjarki í samtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í Sportpakkanum á Stöð 2.

„Á þessum tíma byrja ég að vinna með íþróttasálfræðingi sem heitir Paul Duland og ég er búinn að vinna með honum í fimm ár. Hann hefur tekið mig algjörlega í gegn og hugsunarháttur og líðan á vellinum er allt önnur. Það er sigur fyrir mig að geta farið út á völl og verið sáttur með sjálfan mig og ánægður að spila.“

Eftir hálft ár í Kent State háskólanum í Ohio bað Bjarki um hjálp í baráttunni við kvíðann sem hamlaði honum mikið.

Vaknaði 20 sinnum á nóttunni

„Ég talaði við þjálfarann minn og sagði að þetta gengi ekki. Ég vissi að ég gat gert betur en það var ofboðslega mikið í gangi í hausnum á mér frá því ég fór að sofa, ég vaknaði kannski 20 sinnum á nóttunni og var alltaf með stein í maganum, og þangað til ég mætti í morgunmat. Ég náði engum mat niður og fór næringarlaus út á völl,“ sagði Borgnesingurinn.

„Þetta var keðjuverkun sem átti sér stað og ég bað um hjálp og sem betur fer veittu þeir mér góða hjálp. Ég komst í kynni við Paul sem hefur hjálpað mér ótrúlega mikið.“

Fannst hann alltaf vera að bregðast öðrum

Með hjálp íþróttasálfræðingsins breyttist nálgun Bjarka á leikinn og árangurinn lét ekki á sér standa.

„Kvíðinn minn kom þannig út að mér fannst ég alltaf vera að gera þetta fyrir aðra. Ég var alltaf svo óánægður með sjálfan mig að ég væri alltaf að bregðast öðrum í kringum mig. Vinnan fór mikið í það að losa allar tilfinningar gagnvart leiknum,“ sagði Bjarki. „Það var þetta að vera ekki með alltof miklar tilfinningar gagnvart útkomunni.“

Bjarki lék frábærlega á Íslandsmótinu á Hlíðavelli í Mosfellsbæ og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á nýju mótsmeti, þrettán höggum undir pari.

Klippa: Íslandsmeistarinn í golfi glímdi við keppniskvíða

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×