Enski boltinn

Skilaboðin frá Solskjær sem breyttu Martial í Ferrari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Martial fagnar marki gegn LASK í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Martial fagnar marki gegn LASK í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. vísir/getty

Einn þeirra leikmanna sem hefur stöðugt bætt sig undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United er Anthony Martial.

Martial var frábær í leiknum gegn FCK í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar fyrr í vikunni og Solskjær hefur hjálpað Martial að komast aftur á skrið eftir að hann tók við liðinu.

„Við vitum að hann getur skorað frábær en mér finnst það einnig gott þegar hann skorar auðveld mörk, þegar hann er á milli stanganna. Hann hefur gert það nokkrum sinnum,“ sagði Solskjær.

Daily Mail fjallar um það á síðu sinni í dag að það voru skilaboð frá Solskjær sem breyttu viljanum og áræðinni hjá Martial. Eftir að Romelu Lukaku fór til Inter, þá var nían laus.

Solskjær sendi þá Martial skilaboð hvort að hann hefði áhuga að vera í treyju númer níu og Martial svaraði því játandi.

Norðmaðurinn skrifaði þá til baka að hann yrði þá að sýna að hann væri þess virði í hvert einasta skipti sem hann stigi inn á völlinn.

Frakkinn hefur heldur betur gert það og Owen Hargreaves, fyrrum leikmaður United og nú spekingur BT Sport, er hrifinn af Martial þessar vikurnar.

„Allir hafa skoðun á Martial. Hann er Ferrari. Hann lítur út eins og 100 milljóna punda leikmaður,“ sagði Hargreaves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×