Golf

Fjórði besti árangur Valdísar Þóru | Næsta mótið frestað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valdís Þóra gat leyft sér að brosa eftir að ná 4. besta árangri sínum um helgina.
Valdís Þóra gat leyft sér að brosa eftir að ná 4. besta árangri sínum um helgina. Mark Runnacles/Getty Images

Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir náði sínum 4. besta árangri á South Africa Women´s Open mótinu sem fram hefur farið í Suður-Afríku síðustu daga. 

Valdís Þóra var í toppbaráttu mótsins framan af en eftir harða baráttu á lokahring mótsins sem leikinn var í gær þurfti hún að sætta sig við 7. sæti mótsins. Er það hennar 4. besti árangur á Evrópumótaröð kvenna en þó keppt sér í Suður-Afríku er mótið samt sem áður hluti af Evrópumótaröðinni.

Fyrir hringinn í gær var Valdís fimm höggum á eftir efsta kylfingi mótsins. Tveir fuglar á fyrri níu holum dagsins þýddu að Valdís var allt í einu aðeins höggi á eftir toppsætinu. Tveir skollar á síðari níu gerðu hins vegar út um vonir hennar á sigri.

Valdís lék síðasta hringinn á 72 höggum eða pari vallarins. Þýðir það að hún lék mótið allt á tveimur höggum undir pari og lauk þar með leik aðeins þremur höggum á eftir Alice Hewson sem vann mótið.

Valdís hefur aðeins þrisvar náð betri árangri en hún hefur tvisvar sinnum endaði í 3. sæti og einu sinni í 5. sæti.

Næsta mót í Evrópumótaröð kvenna átti að fara fram í Sádi-Arabíu frá 19. til 22. mars en því hefur nú verið frestað vegna kórónuveirunnar. Bæði Valdís og Guðrún Brá Björgvinsdóttir áttu að taka þátt í mótinu.

Reynt verður að halda mótið síðar á árinu en sem stendur er næsta mót þeirra Guðrúnar og Valdísar í Frakklandi frá 7. til 9. maí.

Kylfingur.is greindi frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×