Menning

Biðla til yfirvalda að finna lausnir fyrir listalífið

Sylvía Hall skrifar
Íslenska Óperan, Íslenski dansflokkurinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Borgarleikhúsið, Menningarfélag Akureyrar, Þjóðleikhúsið og RÚV eru aðilar að SAVÍST.
Íslenska Óperan, Íslenski dansflokkurinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Borgarleikhúsið, Menningarfélag Akureyrar, Þjóðleikhúsið og RÚV eru aðilar að SAVÍST. Vísir/Vilhelm

Samtök atvinnuveitenda í sviðslistum og tónlist, SAVÍST, hvetja stjórnvöld til þess að leita leiða til að starfsemi lista- og menningarstofnana geti farið aftur af stað í þrepum á næstu vikum. Þau leggja til að skoðað verði hvort mögulegt sé að nálgast menningarstarfsemi með svipuðum hætti og gert hefur verið með íþróttahreyfinguna.

Þetta kemur fram í ályktun frá SAVÍST þar sem þau ítreka mikilvægi þess að menningarlíf landsins komist aftur í gang. Það hafi stöðvast nær algjörlega þegar samkomutakmarkanir tóku fyrst gildi og menningarstofnanir hafi fylgt tilmælum yfirvalda í einu og öllu.

Íslenska Óperan, Íslenski dansflokkurinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Borgarleikhúsið, Menningarfélag Akureyrar, Þjóðleikhúsið og RÚV eru aðilar að SAVÍST.

Þau segja mikilvægt að æfingar og annar undirbúningur geti hafist sem fyrst svo hægt sé að bregðast skjótt við ef tilslakanir verða, rétt eins og íþróttafólki hefur verið gert kleift að hefja æfingar á ný. Vilja þau leita allra leiða til þess að starfsemi geti farið af stað sem fyrst innan menningarstofnana, en þó alltaf í samræmi við tilmæli og skilyrði sem yfirvöld setja.

„Að sjálfsögðu vilja menningarstofnanir geta tekið á móti gestum eins fljótt og auðið er en mikilvægast er þó að æfingar og annar undirbúningur viðburða geti hafist hið fyrsta og farið fram með eins eðlilegum hætti og unnt er. Þar mætti horfa til þeirra tilslakana sem gerðar hafa verið fyrir ákveðna þætti atvinnulífsins, íþróttahreyfinguna og skóla,“ segir í ályktun SAVÍST.

Það sé mikið kappsmál að standa vörð um menningu og listir og þann breiða hóp sem hefur atvinnu af listgreinum. Þá sé það ekki síður mikilvægt fyrir alla þá landsmenn sem „sækja andlega næringu í þann brunn“.

„Heill okkar og hamingja er í húfi,“ segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×