Íslenski boltinn

Stjarnan bætti við sig leikmanni úr Harvard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angela Caloia í leik með nítján ára landsliði Ítala á æfingamóti á La Manga í fyrra.
Angela Caloia í leik með nítján ára landsliði Ítala á æfingamóti á La Manga í fyrra. Getty/Quality Sport Images

Angela Pia Caloia mun spila með Stjörnunni í síðari hluta Pepsi Max deildar kvenna í fótbolta en Garðabæjarfélagið hefur fengið staðfest félagsskipti í gegn hjá KSÍ.

Angela er fædd árið 2001 og er því á nítjánda aldursári. Hún á ítalska foreldra en var í menntaskóla í Washington og fékk í framhaldinu skólastyrk hjá Harvard háskólanum.

Caloia á að baki eitt tímabil með Harvard háskólanum þar sem hún stóð sig mjög vel og var með 6 mörk og 11 stoðsendingar í 16 leikjum. Angela náði meðal annars stoðsendingaþrennu í leik á móti UConn og var með 34 skot á mark í þessum sextán leikjum sínum.

Angela var einu sinni valin leikmaður vikunnar í Ivy-deildinni og var tvisvar sinnum nýliði vikunnar í Ivy-deildinni. Hún var á endanum valin í annað úrvalslið 2019 tímabilsins.

Aðeins einn leikmaður hjá kvennaliði Harvard hefur náð að gefa fleiri stoðsendingar á einu tímabili.

Angela Pia Caloia hefur líka reynslu af evrópska fótboltanum því hún hefur spilað með yngri landsliðum Ítalíu.

Angela er komin með leikheimild og getur því spilað sinn fyrsta leik á sunnudaginn þegar Stjarnan fær Þór/KA í heimsókn í Garðabæinn.

Stjarnan er í áttunda sætinu í Pepsi Max-deild kvenna en liðin í kring eru öll jöfn að stigum og því er mikil spenna fyrir næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×