Enski boltinn

Ekkert vetrarfrí og engir endurteknir leikir á næsta tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool á titil að verja í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Liverpool á titil að verja í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. getty/Alex Pantling

Ekkert vetrarfrí verður í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili og þá verða ekki endurteknir leikir í ensku bikarkeppninni.

Kórónuveirufaraldurinn setti mótahald úr skorðum og tímabilinu 2019-20 á Englandi er til þess að gera nýlokið.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2020-21 á að hefjast 12. september og ljúka 23. maí. Það verður fimm vikum styttra en venjulegt tímabil.

Á síðasta tímabili var í fyrsta sinn vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni eins og er í flestum öðrum deildum. Á næsta tímabili verður hins vegar ekkert vetrarfrí svo hægt verði að koma öllum leikjum fyrir.

Til að minnka álag á leikmenn á þessu stutta tímabili verða engir endurteknir leikir í ensku bikarkeppninni. Þá verður einn leikur í undanúrslitum deildabikarsins en ekki tveir, heima og að heiman, eins og venjan er.

Úrslitaleikur enska deildabikarsins fer fram 28. febrúar 2021 og úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar 15. maí.

Vegna kórónuveirufaraldursins verður verðlaunaféð sem bikarmeistararnir fá helmingi minna en á síðasta tímabili. Sigurvegarinn í bikarkeppninni 2020-21 fær 1,8 milljónir punda en Arsenal fékk 3,6 milljónir punda fyrir að vinna bikarinn á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×