Golf

Þrír efstir og jafnir þegar keppni var hætt vegna veðurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roger Sloan lék vel á fyrsta hring Wyndham Championship mótsins.
Roger Sloan lék vel á fyrsta hring Wyndham Championship mótsins. getty/Jared C. Tilton

Keppni á fyrsta hring á Wyndham Championship mótinu á PGA-mótaröðinni í golfi var frestað vegna veðurs. Keppni hefst aftur á morgun.

Þrír kylfingar voru efstir og jafnir þegar keppni var hætt í kvöld. Þetta eru Bandaríkjamennirnir Harold Varner III og Tom Hoge og Kanadamaðurinn Roger Sloan. Þeir léku allir á átta höggum undir pari.

Sigurvegari Wyndham mótsins í fyrra, Bandaríkjamaðurinn J.T. Poston, náði sér engan veginn á strik í dag og lék á fjórum höggum yfir pari. Landi hans, Webb Simpson, sem lenti í 2. sæti í fyrra, er í 13. sæti á fjórum höggum undir pari.

Meðal annarra þekktra kylfinga sem taka þátt á mótinu má nefna Bandaríkjamennina Jordan Spieth og Brooks Koepka, Spánverjann Sergio García og Englendingana Tommy Fleetwood og Justin Rose.

García lék best þeirra en hann er í 25. sæti á þremur höggum undir pari. Fleetwood lék á einu höggi undir pari, Spieth á pari, Koepka á tveimur höggum yfir pari og Rose á þremur höggum yfir pari.

Sýnt verður beint frá öllum keppnisdögum á Wyndham mótinu á Stöð 2 Golf. Á morgun hefst útsending klukkan 18:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×