Enski boltinn

Barkley fékk sér vel í tána í Grikklandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Barkley fagnar sigurmarkinu gegn Leicester í átta liða úrslitum enska bikarsins.
Barkley fagnar sigurmarkinu gegn Leicester í átta liða úrslitum enska bikarsins. vísir/getty

Ross Barkley, miðjumaður Chelsea, virðist vera að njóta sumarfrísins vel í Grikklandi ef marka má myndir þaðan.

Enski landsliðsmaðurinn er staddur á Mykonos þar sem hann hlaðar batteríin eftir langt tímabil í enska boltanum.

Leikmenn Chelsea hafa verið í fríi eftir að liðið datt út úr Meistaradeildinni gegn Bayern Munchen í síðustu viku.

Í gær birtust svo myndir af Barkley á Mykonos en hann virðist vera búinn að fá sér vel í tánna á þeim myndum.

Tveir vinir hans þurftu að styðja við Englendinginn er hann gekk út úr partíi í bænum en hann er þó ekki að brjóta neinar reglur.

Barkley hefur áður komið sér í vandræði með sínu næturlífi en tvö atvik áttu sér stað á síðasta ári þar sem áfengið fór illa með Barkley.

Í fyrra skiptið var hann myndaður á leið í hraðbanka með tveimur lögreglumönnum til þess að taka út pening fyrir leigubílstjóra og í síðara skiptið var hann, í glasi, ber að ofan á Dubai í landsleikjahléi.

Hann sagði síðar meir í viðtali að hann þyrfti að læra af reynslunni en enski boltinn hefst aftur eftir tæpan mánuð.

Reikna má með að leikmenn Chelsea þurfi að mæta til æfinga síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×