Golf

Justin Thomas vann mót meistaranna eftir umspil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Thomas
Justin Thomas Getty/Harry How

Justin Thomas fagnaði sigri á Sentry Tournament of Champions eða móti meistara síðasta PGA-tímabils sem lauk á Hawaii í nótt.

Justin Thomas tryggði sér sigurinn að lokum í umspili eftir að hann og þeir Patrick Reed og Xander Schauffele komu allir inn í hús á 278 höggum eftir 72 holur.



Justin Thomas átti að vera búinn að tryggja sér sigurinn fyrir umspilið því hann tapaði tveimur höggum á síðustu þremur holunum. Xander Schauffele var síðan kominn í lykilstöðu á lokaholunni en þrípúttaði og bjó um leið til þriggja manna umspil.

Patrick Reed var í góðum málum á átjándu holunni í umspilinu en þurfti að tvípútta og horfði á eftir sigrinum til Justin Thomas.

Justin Thomas var að vinna mót PGA-meistaranna í annað skiptið á ferlinum en á þessu móti keppa aðeins þeir sem unnu PGA-mót á síðasta tímabili. Thomas vann þetta mót einnig í janúar 2017.

„Af einhverri ástæðu þá átti ég að vinna í þessari vikur. Ég var mjög heppin að fá þetta lokapútt,“ sagði Justin Thomas um púttið sem tryggði honum sigurinn í umspilinu.



Justin Thomas vann þarna sitt tólfta PGA mót á ferlinum en hann hefur unnið þrjú af síðustu sex mótum sínum. Hann er kominn einu móti fram úr Jordan Spieth og enginn kylfingur undir 30 ára í dag hefur nú unnið fleiri PGA-mót. Justin Thomas er 26 ára gamall.

„Ég átti að vinna þetta mót. Ég átti að klára þetta og gerði allt rétt þar til á síðustu stundu,“ sagði Xander Schauffele sem gat unnið mótið annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×