Erlent

Brasilískur ráðherra fór með orð áróðursmeistara Hitlers

Kjartan Kjartansson skrifar
Roberto Alvim, menningarmálaráðherra, taldi að orð sín, sem voru nær samhljóða ræðu Göbbels, hefðu verið fullkomið.
Roberto Alvim, menningarmálaráðherra, taldi að orð sín, sem voru nær samhljóða ræðu Göbbels, hefðu verið fullkomið. AP/Eraldo Peres

Menningarmálaráðherra Brasilíu sætir nú harðri gagnrýni eftir að hann notaði hluta úr ræðu Josephs Göbbels, áróðursmeistara nasista, í myndbandi sem birtist á Twitter-síðu ráðuneytis hans. Undir myndbandinu hljómaði tónlist eftir Richard Wagner, uppáhaldstónskálds Adolfs Hitler.

Myndbandið fjallað um ný verðlaun sem Roberto Alvim, menningarmálaráðherra, sagði að ættu að vera fyrir „hetjulega“ og „þjóðlega“ list. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur ítrekað sakað brasilíska listamenn og menningarfrömuði um að framleiða kvikmyndir og skólabækur með „vinstri slagsíðu“.

Hluti af því sem Alvim segir í myndbandinu kemur orðrétt úr ræðu Göbbels sem er rakin í ævisögu nasistaleiðtogans, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sagði Alvim að brasilísk list næsta áratugarins yrði „tengd brýnum vonum þjóðarinnar djúpum böndum, ella yrði hún ekkert“.

Alvim brást við gagnrýninni með því að segja að líkindin við ræðu Göbbels hafi verið „orðræðuleg tilviljun“ og að ekkert hafi verið að orðum hans. Hann tjáði sig ekki um tónlistina undir myndbandinu.

„Öll ræðan byggðist á þjóðernislegri hugsjón fyrir brasilískar listir og það var tilviljun með EINA setningu úr ræðu Göbbels. Ég vitnaði ekki í hann og ég myndi ALDREI gera það. En setningin sjálf er fullkomin,“ skrifaði Alvim á Facebook-síðu sína.

Samtök brasilískra gyðinga voru á meðal þeirra sem fordæmdu að menningarmálaráðherrann líkti eftir Göbbels í ræðu. Það væri ógnvekjandi sýn á menningu í landinu sem berjast þyrfti gegn og halda í skefjum.

„Brasilía, sem endi hugrakka hermenn til að berjast við nasismann á evrópskri fold, á þetta ekki skilið,“ segja samtökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×