Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá skíðadeild Víkings vann í dag til silfurverðlauna í svigi á Ítalíu. Hilmar tók þar þátt í þriggja daga svigmóti í Prato Nevoso en mótið var liður í heimsbikarmótaröð IPC.
Hilmar féll í brekkunni fyrstu tvo keppnisdagana og lauk ekki keppni en í dag á þriðja og síðasta keppnisdegi vann hann til silfurverðlauna og kom í mark á tímanum 1:42.22 mín. Finninn Santeri Kilveri vann þennan þriðja dag á tímanum 1:39.50 mín.
Hilmar er væntanlegur aftur til Íslands á morgun en í lok janúarmánaðar heldur hann til Jansa í Slóvakíu til að taka þátt í móti innan Evrópumótaraðarinnar.
Árið 2019 var stórt ár hjá Hilmari Snæ en hann var fyrstur Íslendinga til vinna sigur á heimsbikar-mótaröð fatlaðra 2019 í alpagreinum í Zagreb þar sem heimsbikarmótið í svigi fór fram í janúar.
Fáeinum dögum síðar fór fram sjálft heimsmeistaramótið í Kransjska Gora í Slóveníu og þar hafnaði Hilmar í fjórða sæti í svigi aðeins 28 hundruðustu úr sekúndu frá verðlaunasæti. Hilmar keppir í flokki aflimaðra (á öðrum fæti). Hann vann tvenn verðlaun á heimsbikarmótaröðinni 2020 í svigi fyrir áramót, varð í þriðja sæti þann 5. nóvember og í öðru sæti þann 8. nóvember.

