Innlent

Bæði snjóflóðin á Flateyri fóru yfir varnargarðinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Flateyri í nótt. Þar varð tjón á smábátum þegar flóðið úr Skollahvilft féll í höfnina.
Frá Flateyri í nótt. Þar varð tjón á smábátum þegar flóðið úr Skollahvilft féll í höfnina.

Bæði snjóflóðin sem féllu á Flateyri seint í gærkvöldi fóru yfir varnargarð í bænum. Áður hafði komið fram að annað flóðið fór að hluta yfir garðinn og lenti á hús í útjaðri bæjarins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Snjóathugunarmenn og sérfræðingar hafa í dag kannað snjóflóðin á Flateyri. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir nú áætlar Veðurstofan að flóðin á Flateyri í gær kunni að vera sambærileg að stærð við snjóflóð sem féll úr Skollahvilft við Flateyri árið 1995.

Annað flóðið í gær kom úr Innra-Bæjargili og hafnaði á húsi við Ólafstún 14. Íbúi í húsinu, unglingsstúlka, lenti í flóðinu en slapp með nokkrar skrámur. Hún lá undir flóðinu í um 40 mínútur en björgunarsveitarmönnum í bænum tókst að grafa hana upp.

Skýringarmynd sem sýnir hvar snjóflóðin tvö féllu.Vísir/Hjalti

Hitt flóðið féll úr Skollahvilft á Flateyri og olli tjóni í höfninni. Í ljós hefur komið að þetta flóð fór að hluta yfir varnargarðinn, eins og áður var vitað um flóðið sem féll hinum megin í bænum úr Innra-Bæjargili.

Þá eru vísbendingar um að meira hafi flætt yfir Skollahvilftargarðinn en yfir garðinn undir Innra-Bæjargili. Niðurstöður mælinga liggja þó ekki fyrir.

„Flóð yfir varnargarðana á tveimur stöðum nú kalla á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og þá um leið endurskoðun á hættumati sem gert var 2004,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Auður Elva Kjartansdóttir, sérfræðingur í ofanflóðum hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Vísi í dag að svo virtist sem eins konar öldugangur hefði myndast í flóðinu sem kom úr Innra-Bæjargili. Þessi öldugangur hefði valdið því að flóðið skvettist yfir varnargarðinn og lenti á íbúðarhúsinu. Þá væri það ekki nema við allra verstu aðstæður að Veðurstofan búist við því að flóð gæti hugsanlega farið yfir varnargarðinn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×