Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, hefur tilkynnt að allar lestar- og ferjusamgöngur milli Hong Kong og meginlands Kína verði stöðvaðar frá og með fimmtudeginum næsta, 30. janúar. Er það gert til að reyna að hefta útbreiðslu Wuhan-kórónaveirunnar.
Lam bar græna andlitsgrímu þegar hún greindi frá aðgerðunum fyrr í dag. Sagði hún að auk þess verði flugferðum milli Hong Kong og meginlandsins fækkað um helming og tímabundið verði hætt að gefa út leyfi til ferðalaga þar á milli.
Samkvæmt nýjustu tölum frá kínverskum heilbrigðisyfirvöldum hafa 106 látist vegna kórónaveirunnar og um 4.500 manns smitast í Kína. Alls hefur fengist staðfest að átta hafi smitast af veirunni í Hong Kong, einni af helstu fjármálamiðstöðvum heimsins.
Fullvíst er talið að veiran eigi uppruna sinn í borginni Wuhan í Hubei-héraði og eru flestir hinna smituðu búsettir þar.
Veiran hefur engu að síður dreift sér um Kína og til annarra landa líkt og Bandaríkjanna, Frakklands, Suður-Kóreu, Japans, Nepal, Taílands, Singapúr, Víetnam, Kambódíu, Srí Lanka, Kanada og nú síðast Þýskalands.