Viðskipti innlent

Eimskipsfólk segist handbendi Eflingar að sér forspurðu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfsmönnum Eimskips finnst þeir vera teiknaðir upp sem hálaunastétt í auglýsingu Eflingar. Það sé fjarri sanni.
Starfsmönnum Eimskips finnst þeir vera teiknaðir upp sem hálaunastétt í auglýsingu Eflingar. Það sé fjarri sanni. Vísir/vilhelm

Mikil kergja er meðal starfsmanna Eimskips með nýja auglýsingu Eflingar. Þeir segjast ósáttir við að vera notaðir sem vopn í kjarabaráttu stéttarfélagsins og kannast ekki við þau launakjör sem þar eru nefnd. Viðmælandi Eflingar í auglýsingunni segir allt satt og rétt sem þar kemur fram en óánægja Eimskipsfólks skýrist líklega af samanburði taxta og útborgaðra launa. Það hafi eflaust mátt koma skýrar fram og ætlunin ekki að gera lítið úr starfsmönnum Eimskips.

Umrædd auglýsing hefur verið sýnd í sjónvarpi undanfarna daga, í samhengi við yfirstandandi kjarabaráttu Eflingarfólks við Reykjavíkurborg. Boðað hefur verið til verkfalls í byrjun næsta mánaðar, sem m.a. mun taka til starfsfólks á hjúkrunarheimilum, heimaþjónustu og leikskólafólks.

Viðmælandinn í auglýsingu Eflingar tilheyrir síðastnefnda hópnum. Thelma Björk Brynjólfsdóttir, leiðbeinandi á leikskóla, lýsir bágum launakjörum fyrir starf sem sé oft og tíðum erfitt. Fyrir sjö tíma vinnudag fái hún útborgað á bilinu 250 til 270 þúsund krónur, sem skili henni á bilinu 10 til 30 þúsund krónum eftir að hafa greitt leigu.

Starfsmenn Eimskips efast ekki um að leiðrétta þurfi launakjör leikskólastarfsfólks, að sögn Aðalsteins Rúnars Björnssonar, yfirtrúnaðarmanns starfsmanna. Þeir séu hins vegar ósáttir með þá mynd sem dregin er upp af launakjörum þeirra sjálfra í auglýsingunni.

„Sonur minn er tvítugur og þegar hann var sautján ára þá fór hann að vinna í Eimskip og hann var með mun hærri launaseðil en ég fékk. Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða hlæja og ég skammaðist mín hrikalega mikið fyrir launin mín,“ segir Thelma Björk í lok auglýsingarinnar.

Þessi samanburður er ósanngjarn að mati starfsmanna Eimskips og ekki sannleikanum samkvæmur.

„Taxtinn hérna nær ekki 300 þúsund krónum, segir Aðalsteinn. Það standist því ekki skoðun að launakjör Eimskipsfólks séu langtum hærri en þau sem nefnd eru í auglýsingunni - „ekki nema að hann [sonur Thelmu] hafi unnið næturvinnu. Taxtinn sjálfur er hins vegar lægri“

Thelma Björk segir í samtali við Vísi að þar liggi hundurinn einmitt grafinn. Sonur hennar hafi unnið mikið á kvöldin sem kunni að skýra háu launin hans. Ef til vill hafi ekki komið nógu skýrt fram í auglýsingunni að um útborguð laun hans hafi verið að ræða, ekki strípaðan taxta. Sonur hennar hafi engu að síður haft meira á milli handanna um hver mánaðamót en hún. 

Thelma undirstrikar jafnframt að hún hafi ekki ætlað sér að meira úr launakjörum Eimskipsfólks en tilefni er til. Hún hafi aðeins verið að lýsa eigin reynslu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, færði Degi B. Eggertssyni borgarstjóra verkfallsboðun Eflingarfólks í gær.Vísir/vilhelm

Berjast sjálf fyrir betri launum

Aðalsteinn hjá Eimskip segir að það sé „gríðarleg kergja hérna innanhúss,“ vegna þessa útspils Eflingar. Hann hafi sjálfur tekið við ótal símtölum frá pirruðum samstarfsmönnum sem kæri sig ekki um að vera stillt svona upp eins og gert er í auglýsingunni.

„Það er verið að beita okkur í kjarabaráttu Eflingar, láta það hljóma eins og við séum á einhverjum ofurlaunum.“ Það sé hins vegar ekki raunin, starfsfólk Eimskips sé sjálft að berjast fyrir betri kjörum. „Þetta er ein hættulegasta vinna í heimi, að vinna við hafnarvinnu,“ segir Aðalsteinn. Launakjör þeirra séu ekki í samræmi við það.

Þar að auki segist Aðalsteinn ekki þekkja dæmi um sautján ára starfsmenn. Hann standi í þeirri trú að fólk verði að hafa náð 18 ára aldri áður en það hefur störf hjá Eimskip. Það kemur heim og saman við upplýsingar sem fengust frá launadeild fyrirtækisins: „Almennt séð er vinnureglan sú að starfsmenn þurfa að hafa náð 18 ára aldri til að hefja störf hjá Eimskip.“ Aðspurð um þetta segir Thelma að hana minni að sonur hennar hafi verið 17 ára þegar hann hóf störf fyrir Eimskip. Hún útiloki þó ekki að hann kunni að hafa verið nýskriðinn inn á nítjánda ár.

Í svari launadeildarinnar segir ennfremur að launatöflur Eimskips styðjist við kjarasamninga viðeigandi stéttarfélaga. Um fimmtungur starfsmanna fyrirtækisins séu þannig félagsmenn Eflingar. Laun séu uppbyggð eftir vinnutíma og starfsstöðvum þar sem álagsgreiðslur geta verið mismunandi eftir eðli starfa.

 

Mikil starfsmannavelta endurspegli lök kjör

Thelma telur nokkurn hug í Eflingarfólki fyrir komandi átök, eins og niðurstöður verkfallsboðunarinnar bera með sér. Næstum 96 prósent aðspurðra samþykktu að leggja niður störf í byrjun næsta mánaðar. Thelma telur að langvarandi óánægja með launakjör umræddra stétta spili þar stórt hlutverk.

Til að mynda sé mikið brottfall meðal Eflingarfólks á leikskólanum sem hún starfar. Ófaglært fólk sem starfar samkvæmt töxtum félagsins og Reykjavíkurborgar flosni fljótt upp úr starfi. 

Yfirvofandi vinnustöðvun á leikskólum komi því henni ekki mikið á óvart, nú sé verið að vinna að útfærslu verkfallanna sem Thelma segir að verði líklega mismunandi á milli leikskóla. Það ráðist af hlutfalli Eflingarstarfsmanna á hverjum leikskóla fyrir sig. Útfærslan muni skýrast nánar þegar nær dregur, en fyrsta vinnustöðvun er fyrirhuguð 4. febrúar frá 12:30 til miðnættis.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, vildi ekki tjá sig um auglýsinguna eða gagnrýni Eimskipsfólks þegar eftir því var leitað.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×