Körfubolti

NBA liðin byrjuðu leikina á því að tapa boltanum viljandi til að minnast Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Á leik Phoenix Suns og Memphis Grizzlies var ein röðin tóm í áhorfendastúkunni þar sem var skilti sem á stóð: Hvíldu í friði Kobe.
Á leik Phoenix Suns og Memphis Grizzlies var ein röðin tóm í áhorfendastúkunni þar sem var skilti sem á stóð: Hvíldu í friði Kobe. AP/Brandon Dill

Það fóru fram fullt af NBA-leikjum í nótt í skugga þess að NBA körfuboltaheimurinn missti goðsögnina Kobe Bryant í þyrluslysi í gær. Liðin minntust Kobe Bryant fyrir leik, sum á meðan leiknum stóð og nær allir töluðu um hann í viðtölum eftir leik.

Damian Lillard var fyrsti leikmaðurinn í sögu Portland Trail Blazers sem skorað yfir 40 stig í þremur leikjum í röð. Nýliðinn Zion Williamson lék sinn þriðja leik með New Orleans Pelicans og fagnaði sínum fyrsta sigri.



Damian Lillard var með 50 stig og 13 fráköst þegar Portland Trail Blazers vann 139-129 sigur á Indiana Pacers. CJ McCollum kom til baka eftir þriggja leikja fjarveru vegna ökklameiðsla og bætti við 28 stigum og miðherjinn Hassan Whiteside var með 21 stig og 14 fráköst.

Það var 24 sekúndna þögn fyrir leikinn en liðin gerðu meira í að minnast Kobe Bryant. Í upphafi leiksins lét Portland Trail Blazers 24 sekúndna klukkuna renna út og strax í framhaldinu fékk Indiana Pacers svo dæmdar á sig átta sekúndur. Kobe Bryant spilaði einmitt í treyjum 24 og 8 á ferlinum. Lið Memphis Grizzlies og Phoenix Suns höfðu sama háttinn á.

Domantas Sabonis var með þrennu á móti liðinu sem faðir hans, Arvydas, spilaði með á sínum tíma en Sabonis skoraði 27 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 11 fráköst. Hann var með þrennu annan sunnudaginn í röð.



Zion Williamson var með 21 stig og 11 fráköst á aðeins 27 mínútum þegar New Orleans Pelicans vann 123-108 sigur á Boston Celtics. Zion skoraði meðal annars átta stig á síðustu þremur mínútum leiksins þar á meðal skoraði hann með troðslu og fékk víti að auki.  Bæði liðin létu 24 sekúndu klukkuna renna út í upphafi leiks.



Trae Young var með 45 stig og 14 stoðsendingar og horfði margsinnis upp til himna (til Kobe) þegar lið hans Atlanta Hawks vann 152-133 sigur á Washington Wizards.

Pascal Siakam skoraði 35 stig í sigri Toronto Raptors á San Antonio Spurs en bæði lið minntust Kobe Bryant með því að láta 24 sekúndna klukkuna renna út í byrjun leiks.

Kawhi Leonard skoraði 15 af 31 stigi sínum í þriðja leikhlutanum þegar Los Angeles Clippers vann 112-97 sigur á Orlando Magic.

Nikola Jokic náði níundu þrennu sinni á tímabilinu, 24 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar, þegar Denver Nuggets vann 117-110 sigur á liði Houston Rockets. James Harden lék ekki með Houston en Russell Westbrook skoraði 32 stig.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Portland Trail Blazers - Indiana Pacers 139 - 129

Atlanta Hawks - Washington Wizards 152-133

Memphis Grizzlies - Phoenix Suns 114-109

New Orleans Pelicans - Boston Celtics 123-108

New York Knicks - Brooklyn Nets 110-97

Orlando Magic - Los Angeles Clippers  97-112

San Antonio Spurs - Toronto Raptors 106-110

Denver Nuggets - Houston Rockets 117-110








Fleiri fréttir

Sjá meira


×