Erlent

„Maðurinn sem situr hér er ekki bara stórlax í Hollywood, hann er nauðgari“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Weinstein var umkringdur fylgdarliði við komuna í dómshúsið á Manhattan í dag.
Weinstein var umkringdur fylgdarliði við komuna í dómshúsið á Manhattan í dag. Vísir/Getty

Málflutningur í máli bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein hófst í New York í dag.

Ákæruliðir á hendur Weinstein eru fimm, en hann er meðal annars ákærður fyrir nauðgun og kynferðislegt ofbeldi. Meintir brotaþolar Weinstein í málinu eru tveir, en yfir 80 konur hafa á síðustu árum stigið fram og sakað framleiðandann ýmist um nauðgun, kynferðislegt ofbeldi eða áreitni.

Meghan Hast, saksóknari í málinu, hóf málflutning sinn í dag.

„Maðurinn sem situr hér er ekki bara stórlax í Hollywood, hann er nauðgari,“ sagði Hast meðal annars.

Gert er ráð fyrir því að verjendur Weinstein muni bera fyrir sig að öll samskipti milli framleiðandans og brotaþola hafi verið með fullu samþykki allra aðila, og að ekkert ólöglegt hafi átt sér stað.

Weinstein mætti í dómshúsið á Manhattan fyrr í dag, varinn fylgdarliði sínu. Þegar einn fréttamannanna sem biðu hans við komuna spurði hvort hann ætti von á réttlátri málsmeðferð var svar hans einfalt:

„Að sjálfsögðu.“

Þrátt fyrir að konurnar sem stigið hafa fram og sakað Weinstein um að hafa brotið gegn sér hlaupi á tugum hafa fáar ásakanir á hendur honum ratað fyrir dómstóla. Í síðustu viku lagði dómari í málinu mögulegum kviðdómendum skýrar línur, og ítrekaði að þeir yrðu að komast að niðurstöðu út frá sönnunargögnum málsins, og þeir mættu ekki byggja niðurstöðuna á skoðun sinni á #MeToo-hreyfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×