Körfubolti

Segir að fráfall Kobe Bryant hafi þjappað Lakers-liðinu meira saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið Los Angeles Lakers hefur ekki spilað leik sína að Kobe Bryant fórst í þyrluslysinu.
Lið Los Angeles Lakers hefur ekki spilað leik sína að Kobe Bryant fórst í þyrluslysinu. Getty/ Andrew D. Bernstein

Leikmenn Los Angeles Lakers eru farnir að æfa að nýju eftir nokkra daga hlé eftir að Kobe Bryant fórst í þyrluslysi á sunnudaginn. Þjálfarinn, Frank Vogel, ræddi við fjölmiðla í gær.

„Ég held að svona atburður geti aldrei sundrað okkur á einn eða annan hátt,“ sagði Frank Vogel en leik liðsins á móti Los Angeles Clippers á þriðjudaginn var frestað.

„Þetta hefur bara styrkt þá trú sem við höfðum haft á þessum hóp sem er að við höfum orðið að fjölskyldu á skömmum tíma. Það er það sem þú talar mikið um við liðið þitt í NBA deildinni en þessi hópur hefur náð vel saman mjög fljótt,“ sagði Frank Vogel.

„Við skiljum mikilvægið og möguleikana sem við höfum í ár og það hefur þjappað okkur enn meira saman,“ sagði Vogel.



Æfingin endaði með því að allir leikmenn komu saman en í hópnum var einnig Rob Pelinka. Rob Pelinka var umboðsmaður Kobe Bryant í langan tíma en fór síðan að vinna fyrir Lakers og var einn nánasti vinur Kobe. Hann var einnig guðfaðir Giannu.

Blaðamenn tóku eftir því að ljóskösturum var beint að treyjum Kobe, 8 og 24, sem héngu uppi í salnum.

„Við viljum standa fyrir það sem skipti Kobe mestu máli. Við höfum alltaf vilja gera hann stoltan og það mun ekki breytast núna,“ sagði Vogel.

Frank Vogel var sá eini í liðinu sem veitti fjölmiðlamönnum viðtal. „Þið getið talað þegar þið eruð tilbúnir til þess og ekki fyrr,“ sagði Frank Vogel við leikmenn sína.



Næsti leikur Los Angeles Lakers er á móti Portland Trail Blazers í Staples Center á föstudagskvöld og Vogel trúir því að liðið hafi gott að því að komast inn á körfuboltavöllinn aftur.

„Ég held að það hjálpi. Í hvert skiptið sem þú getur hugsað um eitthvað annað getur aðeins hjálpað til við að lækna sárin og komast í gegnum þetta,“ sagði Vogel.

Vogel hrósaði jafnframt LeBron James og Anthony Davis hvernig þeir hafa farið fyrir hópnum á þessum erfiða tíma.



„Við höfum farið yfir það með þeim hvernig næstu dagar verða. Þeir hafa sagt sitt til að hjálpa hópnum að ná stjórn á sínum tilfinningum og komast í gegnum þetta,“ sagði Vogel.

Það kom í hlut Frank Vogel að færa leikmönnum sínum þessar hræðilegu fréttir í flugvél á leiðinni frá Philadelpha til Los Angeles. Hann gekk þá á milli leikmanna.

„Það tók mikið á að fara á milli manna, faðma þá og láta þá vita,“ sagði Vogel. Eftir að flugvélin lenti í Los Angeles þá komst bara eitt að hjá þjálfaranum. „Ég fór heim og faðmaði fjölskylduna,“ sagði Vogel en hann á tvær dætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×