Enski boltinn

Klopp útilokar ekki að Liverpool starfið verði hans síðasta á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með Englandsbikarinn og meistaragullið eftir sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Jürgen Klopp með Englandsbikarinn og meistaragullið eftir sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Paul Ellis

Stuðningsmenn Liverpool vilja helst aldrei upplifa þann dag þegar Jürgen Klopp hættir sem knattspyrnustjóri félagsins. Sá dagur mun hins vegar örugglega renna upp og væntanlega eftir tæp fjögur ár.

Jürgen Klopp hefur gert magnaða hluti með Liverpool liðið sem varð undir hans stjórn Englandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða á rúmu ári.

Jürgen Klopp tók við liði Liverpool 2015 og hefur síðan búið til frábært lið á Anfield. Samningur hans við Liverpool rennur út árið 2024 og hann ætlar ekki að endurnýja hann eins og staðan er núna.

„Ég mun taka mér ársfrí og þá mun ég spyrja sjálfan mig um það hvort ég sakni fótboltans. Ef ég sakna hans ekki þá verður það síðasta sem við sjáum af þjálfaranum Jürgen Klopp,“ sagði Jürgen Klopp við þýska blaðið Sportbuzzer.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort að Klopp taki þá við þýska landsliðinu eða snúi heim til Þýskalands og taki við Bayern Münhcen. Staða mála á báðum þeim vígstöðvum mun örugglega ráða miklu um hversu mikil pressa verður á það.

Liverpool varð enskur meistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár í sumar en næsta tímabil fer af stað 12. september næstkomandi. Klopp lítur ekki svo á að Liverpool liðið sé að fara að verja titilinn.

„Við erum ekki að verja neinn titil. Við viljum vinna nýja titla af því að við erum nýbyrjaðir að vinna titla,“ sagði Jürgen Klopp

„Allt liðið hlakkar til að byrja tímabilið og við viljum gera enn betur. Við munum elta mótherja og boltann út um allan völl. Við viljum verða pirrandi liðið sem kemur í veg fyrir að mótherjar okkar skemmti sér inn á vellinum," sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×