Enski boltinn

David Silva fær styttu af sér fyrir utan heimavöll Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva og Joe Hart fagna hér saman fyrsta Englandsmeistaratitli Manchester City í núverandi sigurgöngu en þetta var árið 2012.
David Silva og Joe Hart fagna hér saman fyrsta Englandsmeistaratitli Manchester City í núverandi sigurgöngu en þetta var árið 2012. Getty/Alex Livesey

David Silva kvaddi Manchester City um helgina en félagið ætlar að passa það að gestir á heimaleiki félagsins gleymi honum ekki.

Manchester City hefur gefið út plön sín að reisa styttu af spænska knattspyrnumanninum David Silva fyrir utan heimavöll Manchester City, Ethiad leikvanginn.

David Silva lék sinn síðasta leik með Manchester City um helgina þegar liðið datt út á móti Lyon í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Silva kom inn á sem varamaður á 84. mínútu leiksins og lék síðustu mínúturnar. Að baki eru tíu mögnuð og sigursæl ár hjá félaginu.

David Silva kom til Manchester City frá Valencia árið 2010 en hinn 34 ára gamli miðjumaður lék alls 436 leiki fyrir félagið og vann samtals fjórtán titla.

„David var hljóðlátur leiðtogi sem veitti öllum mönnum í kringum sig innblástur. Styttan af David mun minna okkur um allar þær stundirnar sem hann gaf okkur, ekki aðeins sem stórkostlegur fótboltamaður heldur einnig sem frábær sendiherra félagsins sem kom alltaf fram af miklum virðuleika,“ sagði Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City.

Styttan verður afhjúpuð á næsta ári en á sama tíma verður reist samskonar stytta af Vincent Kompany, fyrrum fyrirliða Manchester City sem hætti hjá félaginu síðasta sumar.

Saman tóku þeir David Silva og Vincent Kompany þátt í Englandsmeistaratitlum Manchester City 2012, 2014, 2018 og 2019.

Enginn leikmaður hefur spilað fleiri Meistardeildarleiki fyrir Manchester City en einmitt David Silva (70) og þá varð hann tvisvar bikarmeistari og fimm sinnum deildabikarmeistari með Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×