Erlent

Smitaðir um borð orðnir tuttugu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþegar um borð í Diamond Princess veifa ljósmyndurum.
Farþegar um borð í Diamond Princess veifa ljósmyndurum. Vísir/EPA

Yfir 560 eru nú látnir af völdum Wuhan-kórónaveirunnar og um 27 þúsund tilfelli veirunnar hafa verið staðfest, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína. Þá greindust tíu með veiruna til viðbótar um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess sem er í einangrun við bryggju í japönsku borginni Yokohama.

Andlát af völdum veirunnar voru skráð 73 í gær á meginlandi Kína. Aldrei hafa fleiri látist vegna veirunnar á einum degi – met sem nú er slegið þriðja daginn í röð.

Farþegar og áhöfn skemmtiferðaskipsins Diamond Princess telja um 3700 manns. Í gær var greint frá því að skipið hefði verið sett í einangrun er það kom í höfn í Yokohama og tíu tilfelli Wuhan-veirusmits meðal farþega voru staðfest.

Tíu hafa nú greinst til viðbótar og eru smitin því orðin samtals tuttugu. Áfram verður prófað fyrir veirunni um borð en hinir smituðu eru fluttir á sjúkrahús. Aðrir munu þurfa að dvelja um borð í skipinu í tvær vikur. Staðfest tilfelli veirunnar í Japan eru nú orðin fjörutíu.

Annað skemmtiferðaskip að nafni World Dream, með um 3600 manns innanborðs, sætir einnig einangrun í Hong Kong. Þrjú tilfelli veirunnar hafa verið staðfest um borð en alls hafa 33 verið prófaðir fyrir veirunni.

Wuhan-veiran breiðist enn hratt út. Í gær var greint frá því að barn, sem greindist með veiruna þrjátíu klukkustundum eftir fæðingu í borginni Wuhan, gæti hafa smitast í móðurkviði. Einnig telst þó líklegt að barnið hafi smitast af móður sinni eftir fæðingu.


Tengdar fréttir

Wuhan-veiran: Kínverskir ferðamenn þurfa ekki sóttkví á Íslandi

Ferðamenn frá Kína þurfa ekki að fara í einangrun vegna Wuhan-veirunnar, við komu hingað til lands. Íslendingar sem ferðast hafa til Kína, og koma heim, eru hins vegar beðnir að vera í fjórtán daga sóttkví eftir heimkomu til að hindra möguleg smit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×