Enski boltinn

Klopp kemur Salah til varnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Salah á góðri stundu.
Klopp og Salah á góðri stundu. vísir/getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur komið einni af stjörnum Evrópumeistarana, Mohamed Salah, til varnar.

Egyptinn hefur verið gagnrýndur mikið að undanförnu og var sagður skjóta þegar hann gæti gefið boltann á liðsfélaga sem væri í betri stöðu.

Þetta var hins vegar ekki uppi á teningnum í leiknum gegn Southampton á laugardaginn þar sem Liverpool vann 4-0 sigur.

„Fyrir viku síðan vorum við að tala um Mo Salah. Hann var aldrei eigingjarn eða eigingjarnari en hann á að vera,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

„Við höfum séð mörk frá Mo þar sem hann er í kringum fjóra leikmenn og finnur leið á markið.“







„Svo þegar þú skorar ekki þá segir fólk að þú hafir átt að gefa boltann hingað og þangað. Hann var mjög óeigingjarn gegn Southampton og fékk boltann aftur svo hann gæti skorað.“

Sá þýski hrósaði ekki bara Salah því kollegi hans í framlínunni, Roberto Firmino, fékk einnig hrós í hattinn.

„Bobby er stórkostlegur. Mjög klókur fóboltamaður og ég þekki ekki leikmann eins og hann.“

Liverpool mætir Shrewsbury í enska bikarnum í kvöld en Klopp og aðalliðið tekur ekki þátt í þeim leik.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×