Erlent

Tyrkir og sýrlenski stjórnarherinn í hár saman

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Idlib í Sýrlandi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá Idlib í Sýrlandi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Sex sýrlenskir stjórnarhermenn eru sagðir hafa fallið í hefndaraðgerðum tyrkneska hersins vegna fjögurra tyrkneskra hermanna sem féllu í sprengikúluregni í norðurhluta Sýrlands. Recep Erdogan Tyrklandsforseti heldur því fram að mun fleiri sýrlenskir hermenn hafi fallið.

Skærurnar hófust eftir að sýrlenski stjórnarherinn skaut sprengikúlum að tyrkneskum hermönnum í Idlib-héraði. Tyrkir halda því fram að ráðist hafi verið á þá þrátt fyrir að sýrlenskum yfirvöldum hafi verið tilkynnt um liðsflutninga fyrir fram. Idlib er síðasta vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi.

Rússar, sem styðja ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta, halda því fram að þeir hafi ekki fengið viðvörun um liðsflutninga Tyrkja og því hafi verið ráðist á þá, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Tyrkneski herinn brást við með stórskotaliðsárás á stjórnarherinn. Erdogan fullyrðir að hann hafi hæft 46 skotmörk og að 30 til 35 sýrlenskir hermenn hafi fallið. Lagði forsetinn þó engar sannanir fram um það, að sögn AP-fréttastofunnar.

Sýrlenski stjórnarherinn sækir nú fram gegn uppreisnarmönnunum í Idlib og Aleppo. Tyrkneskir hermenn hafa verið á svæðinu til að framfylgja vopnahléi sem var þar í gildi en fór út um þúfur.

Grunnt hefur verið á því góða á milli tyrkneskra og sýrlenskra stjórnvalda frá upphafi borgarastríðsins árið 2011. Stjórnvöld í Damaskus saka Tyrki um að grafa undan öryggi í landinu með því að leyfa þúsundum erlendra vígamanna að streyma þangað inn til að taka þátt í stríði gegn sýrlenska hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×