Körfubolti

Verðlaunin nefnd eftir Kobe Bryant | Umdeild troðslukeppni

Sindri Sverrisson skrifar
Derrick Jones sýndi bestu tilþrifin í troðslukeppninni.
Derrick Jones sýndi bestu tilþrifin í troðslukeppninni. vísir/epa

Verðmætasti leikmaður stjörnuleiks NBA-deildarinnar er jafnan heiðraður með verðlaunum og hafa forráðamenn deildarinnar ákveðið að verðlaunin skuli nefnd í höfuðið á Kobe Bryant heitnum, honum til heiðurs.

Verðlaunin verða afhent í dag þegar stjörnuleikurinn fer fram. „Við vorum að hugsa um hver besta leiðin væri til að heiðra Kobe,“ sagði Adam Silver, yfirmaður NBA-deildarinnar. „Það vildi þannig til að hann féll frá skömmu áður en stjörnuleiksveislan hófst. Eitt af því sem stóð upp úr hjá Kobe, fyrir utan að vinna fimm meistaratitla, er að hann var 18 sinnum valinn í stjörnuliðið og deilir metinu yfir að hafa oftast verið valinn verðmætastur, eða fjórum sinnum,“ sagði Silver.

Stjörnurnar létu ljós sitt skína í nótt þegar troðslukeppni og þriggja stiga skotkeppni fór fram. Það mátti sjá mögnuð tilþrif í troðslukeppninni þar sem Derrick Jones Jr. úr Miami Heat hafði að lokum betur gegn Aaron Gordon úr Orlando Magic. Gordon var alls ekki sáttur við úrslitin og sagðist ekki myndu aftur taka þátt í troðslukeppninni, og tveir dómarar viðurkenndu að ætlunin hefði verið að þeir Jones og Gordon yrðu metnir jafnir í lokatroðslum sínum. Ekki var þó ljóst hvort þeir hefðu þá þurft að troða aftur til að velja sigurvegara. Hér má sjá nokkrar af troðslunum.





„Þetta er búið spil. Mér finnst eins og að ég ætti að vera kominn með tvenn verðlaun,“ sagði Gordon reiður, og taldi sig hafa átt að fá fullt hús stiga fyrir allar fimm troðslur sínar. LeBron James er á meðal þeirra sem tekið hafa undir orð Gordons um að hann verðskuldaði verðlaun.





Buddy Hield úr Sacramento Kings vann þriggja stiga skotkeppnina en hann hafði betur í úrslitum gegn Devin Booker og Davis Bertans. Hield náði í 27 stig af 40 mögulegum í úrslitunum en Booker fékk 26 og Bertans 22. Hield hitti vel í lokin:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×