Körfubolti

Sportpakkinn: Þetta er afskaplega dapurt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

Það er ekki mikil ánægja hjá Körfuknattleikssambandi Íslands, KKÍ, þar sem sambandið fékk 20 prósent minna greitt úr Afrekssjóði ÍSÍ en í fyrra.

„Þetta er afskaplega dapurt og mikið sjokk er við fengum þessar fréttir. Það er búið að gera fjárhagsásætlun fyrir árið er við fáum þessi tíðindi. Þetta hefur verið erfitt hjá okkur síðustu ár og sambandið skuldaði töluvert,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

„Það hefur tekið tíma að vinna okkur út úr því og erum farin aðs igla lygna sjó. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1-2 milljónum minna en árið þar á undan. Það gerðum við eftir samtöl við þá sem fara fyrir þessu. En að fá svona mikla lækkun og það í febrúar er virkilega dapurt.“

Hannes segir að svör ÍSÍ séu frekar pólitísk og að þeir súpi seyðið af því að önnur sambönd séu að stækka.

„Starfið hefur stækkað hjá okkur og kröfurnar hafa líka aukist frá ÍSÍ og öðrum. Kröfurnar eru mjög miklar. Ef við viljum ná árangri þá þurfum við peninga til að reka afreksstarf. Ríkisvaldið þarf að setja meiri pening í þennan sjóð. ÍSÍ þarf líka að koma inn af krafti til að sækja peninga í sjóðinn.“

Klippa: Formaður KKÍ um afrekssjóð ÍSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×