Enski boltinn

Slæmt ástand Old Trafford fælir mögulega kaupendur frá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Old Trafford, heimavöllur Manchester United í 110 ár.
Old Trafford, heimavöllur Manchester United í 110 ár. vísir/getty

Slæmt ástand Old Trafford er stór ástæða þess að fjárfestar hafa ekki áhuga á að kaupa Manchester United af Glazer-fjölskyldunni.

Talið er að nauðsynlegar úrbætur á Old Trafford muni kosta allavega 200 milljónir punda. Og United þyrfti að spila á öðrum velli á meðan framkvæmdir stæðu yfir. Daily Mail greinir frá.

Þakið á Old Trafford lekur og suður-stúkan er gömul og hefur ekki verið haldið við. Umbætur á henni rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar Glazer-fjölskyldunnar.

Í frétt Daily Mail kemur fram að fjárfestar þyrftu að gera tilboð upp á rúmlega tvo og hálfan milljarð punda til að Glazer-fjölskyldan myndi íhuga að selja United. Félagið hefur verið í eigu Glazer-fjölskyldunnar síðan 2005.

Old Trafford hefur verið heimavöllur United síðan 1910. Hann tekur tæplega 75.000 manns í sæti og er næststærsti leikvangur Bretlands á eftir Wembley.

Arsenal, Tottenham og Manchester City eru meðal liða í ensku úrvalsdeildinni sem hafa flutt á nýja heimavelli á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×