Enski boltinn

Aldrei spilað þarna en sagði strax já

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gyöekeres og Declan Rice glaðbeittir eftir að hornspyrna Rice fór af Brighton-manni og í netið.
Viktor Gyöekeres og Declan Rice glaðbeittir eftir að hornspyrna Rice fór af Brighton-manni og í netið. Getty/Shaun Botterill

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var hæstánægður með hugarfar Declan Rice og annarra leikmanna sinna í 2-1 sigrinum gegn Brighton í dag og sagði þá hafa verðskuldað mun stærri sigur.

Arsenal leyfði Manchester City bara að vera á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í stutta stund og kom sér þangað aftur með sigrinum gegn Brighton.

Martin Ödegaard skoraði fyrra mark Arsenal og Georginio Rutter skoraði svo sjálfsmark á 52. mínútu, eftir hornspyrnu Rice, en Brighton kom sér inn í leikinn að nýju með marki frá Diego Gómez á 64. mínútu, nánast upp úr þurru.

„Munurinn hefði átt að vera mun, mun meiri miðað við stöðurnar sem við sköpuðum. Ég held að þetta hafi verið fyrsta skotið þeirra, sem þeir skoruðu úr, en þannig er líka úrvalsdeildin,“ sagði Arteta í viðtali sem sjá má hér að neðan.

Klippa: Arteta eftir sigurinn gegn Brighton

Hann var spurður út í það að láta Rice spila sem hægri bakvörður, vegna manneklu:

„Hann hefur aldrei spilað í þeirri stöðu. Ég spurði hann fyrir 48 klukkutímum og hann sagði strax já. Þegar við lendum í erfiðleikum þá eru leikmennirnir alltaf klárir í að græja málin,“ sagði Arteta.

Þó að Brighton hafi lítið skapað í leiknum þá reyndi eitt sinn verulega á David Raya í markinu.

„Það skapaði svolitla óvissu [að Brighton skyldi minnka muninn í eitt mark]. Í stöðunni 2-1 og með þau gæði sem þeirra leikmenn hafa þá var þetta aldrei búið spil.

[Markvarsla Raya] var stórkostleg. Ég sá það vel þar sem ég var. Við þurfum svona frammistöður á stórum augnablikum,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×