Fallon Sherrock var hársbreidd frá því að vinna sögulegan sigur í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni í pílukasti í Nottingham í gær.
Sherrock sló í gegn á HM í pílukasti í desember þar sem hún varð fyrsta konan til að vinna leik. Hún vann fyrstu tvo leiki sína á HM en féll úr leik í 3. umferð.
Vegna frammistöðunnar á HM var Sherrock boðið að keppa í úrvalsdeildinni í pílukasti. Þar mæta fremstu pílukastarar heims svokölluðum „áskorendum“.
Sherrock var nálægt því að verða fyrsti áskorandinn til að vinna leik í úrvalsdeildinni og fyrsta konan til að ná þeim áfanga þegar hún mætti Glen Durrant í gær.
Sherrock var í góðri stöðu en Durrant tryggði sér jafntefli með því að taka út 70. Leikar fóru 6-6.
IT'S A DRAW!!!
— PDC Darts (@OfficialPDC) February 13, 2020
Great resolve from Glen Durrant to force the draw from 6-4 down, but it's still a brilliant performance from Fallon Sherrock on her Premier League Challenger appearance!
History denied, but a great game here in Nottingham! pic.twitter.com/QH42bV5WBe
Eftir leikinn hrósaði Durrant, sem er númer 22 á heimslistanum, Sherrock í hástert.
„Þetta var mikil áskorun og Fallon á allt hrós skilið. Síðustu mánuðir hafa verið ótrúlegir hjá henni. Þetta er minn erfiðasti leikur á ferlinum,“ sagði Durrant sem komst í átta manna úrslit á HM og varð BDO-heimsmeistari þrjú ár í röð (2017-19).
Þrír af fimm leikjum gærdagsins í úrvalsdeildinni enduðu með jafntefli. Heimsmeistarinn Peter „Snakebite“ Wright gerði m.a. jafntefli við Gary Anderson, 6-6.