Íslenski boltinn

Björgvin og Flóki tryggðu KR sætan sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Stefánsson tryggði KR sigur í lokin.
Björgvin Stefánsson tryggði KR sigur í lokin. vísir/bára

KR vann 4-2 sigur gegn ÍA í uppgjöri stórveldanna sem hófu í kvöld keppni í deildabikar karla í fótbolta, Lengjubikarnum, í Akraneshöllinni.

ÍA var 1-0 yfir eftir fyrri hálfleik eftir vítaspyrnu Steinars Þorsteinssonar snemma leiks. Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin á 56. mínútu en Bjarki Steinn Bjarkason kom ÍA yfir á nýjan leik þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Kristján Flóki jafnaði metin á nýjan leik á 80. mínútu en þá var komið að þætti Björgvins Stefánssonar sem komið hafði inn á sem varamaður á 72. mínútu. Hann skoraði tvö mörk á fjórum mínútum og tryggði KR sigur.

Liðin leika í 1. riðli A-deildar og þar er einum öðrum leik lokið en Breiðablik vann Leikni R. 3-1 síðasta föstudag. Næsti leikur ÍA er gegn Leikni F. 23. febrúar en KR mætir Fáskrúðsfirðingum 1. mars í Fjarðabyggðarhöllinni.

Til stóð að leikurinn í kvöld yrði í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en það gekk því miður ekki eftir vegna tæknilegra örðugleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×