Enski boltinn

Man. City og West Ham kölluð fyrr úr fríi

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester City tapaði fyrir Tottenham í síðasta leik.
Manchester City tapaði fyrir Tottenham í síðasta leik. vísir/epa

Manchester City og West Ham mætast á miðvikudaginn eftir rúma viku, á „Meistaradeildarkvöldi“, í leik sínum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta sem fresta þurfti vegna veðurs.

UEFA, knattspyrnusambandi Evrópu, er illa við að leikur sé settur á á sama tíma og leikið er í Meistaradeildinni en sambandið sýnir því skilning að aðrir kostir eru varla í boði. Leikjadagskráin hjá Manchester City er einfaldlega svo þétt.

Liðin áttu að vera í vetrarfríi til 22. febrúar en leikmenn liðanna snúa aftur til æfinga um næstu helgi og því þótti óhætt að fara fram á að þeir spiluðu 19. febrúar. Þetta verður fyrsti leikur City frá 2:0-tapinu gegn Tottenham 2. febrúar og fyrsti leikur Hamranna frá því í 3:3-jafnteflinu við Brighton 1. febrúar.

Forráðamenn West Ham hafa lofað fríum rútuferðum fyrir þá stuðningsmenn sem mæta á leikinn í ljósi þess hvernig málin þróuðust.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×